Enski boltinn

Liverpool svaraði rassskellinum á móti City í fyrravetur með þremur sigrum í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mohamed Salah hjá Liverpool og Aymeric Laporte hjá Manchester City í leik liðanna í fyrra.
Mohamed Salah hjá Liverpool og Aymeric Laporte hjá Manchester City í leik liðanna í fyrra. Vísir/Getty
Manchester City og Liverpool mætast í kvöld í risaleik í ensku úrvalsdeildinni en margir líta á leikinn sem einn af úrslitaleikjum tímabilsins. Það er líka von á góðri skemmtun ef við skoðum fjóra leiki liðanna í fyrravetur.

Liðin mættust alls fjórum sinnum í deild og Meistaradeild tímbilið 2017-18 og alls voru skoruð 4,5 mörk að meðaltali í þessum fjórum fjörugu leikjum.





Manchester City vann 5-0 stórsigur á Liverpool í fyrsta leik liðanna í september en Sadio Mané fékk þá að líta rauða spjaldið strax á 37. mínútu leiksins.

Staðan var þá 2-0 fyrir City en lærisveinar Pep Guardiola bættu við þremur mörkum manni fleiri þar af skoraði Leroy Sané tvö þeirra. Hin mörk City liðsins skoruðu þeir Gabriel Jesus (2 mörk) og Sergio Agüero.

Seinni deildarleikurinn fór fram á Anfield í byrjun ársins 2018 og þar var boðið upp á sjö marka veislu.

Liverpool vann leikinn 4-3 eftir að hafa komist í 4-1 eftir 68 mínútna leik. City menn skoruðu tvö mörk í lokin en tókst ekki að jafna metin. Alex Oxlade-Chamberlain, Roberto Firmino, Sadio Mané og Mohamed Salah skoruðu mörk Liverpool en fyrir City skoruðu þeir Leroy Sané, Bernardo Silva og Ilkay Gündogan.

Liðin spiluðu síðan tvisvar með sex daga millibili í aprílmánuði eftir að þau drógust saman í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Liverpool vann fyrri leikinn 3-0 á Anfield þar sem öll þrjú mörkin komu á fyrstu 32 mínútunum. Salah, Oxlade-Chamberlain og Mané komu Liverpool í 3-0 og í lykilstöðu fyrir seinni leikinn.

Liverpool vann seinni leikinn 2-1 með mörkum Firmino og Salah og þar með 5-1 samanlagt.

Gabriel Jesus kom City í 1-0 strax á 2. mínútu og gaf þeim von en mark Mohamed Salah á 56. mínútu þýddi að City menn þurftu að skora fjögur mörk til viðbótar. Þeim tókst hinsvegar ekki að komast aftur yfir og Roberto Firmino skoraði síðan sigurmarkið þrettán mínútum fyrir leikslok.

Liverpool fór síðan alla leið í úrslitaleik Meistaradeildarinnar eftir sigur á Roma í undanúrslitunum en tapaði þar fyrir Real Madrid.

Liverpool vann kannski tveimur fleiri leiki en Manchester City í innbyrðisleikjum liðanna á síðasta tímabili en þau skoruðu samt jafnmörg mörk í þessum fjórum leikjum eða níu mörk hvort lið.



Leikir Manchester City og Liverpool tímabilið 2017-18:

Enska úrvalsdeildin

9. september: Manchester City - Liverpool 5-0

14. janúar: Liverpool - Manchester City 4-3

Meistaradeildin, átta liða úrslit:

4. apríl: Liverpool - Manchester City 3-0

10. apríl: Manchester City - Liverpool 1-2

Samtals:

4 leikir

18 mörk

4,5 mörk í leik

Liverpool 3 sigrar og 9 mörk

Manchester City 1 sigur og 9 mörk




Fleiri fréttir

Sjá meira


×