Innlent

Jörðin í sólnánd á einum myrkasta tíma ársins

Kjartan Kjartansson skrifar
Blessuð sólin elskar allt, og aðeins meira um hávetur á norðurhveli.
Blessuð sólin elskar allt, og aðeins meira um hávetur á norðurhveli. Vísir/EPA
Sólnánd átti sér stað klukkan tuttugu mínútur yfir fimm í morgun en þá var jörðin næst sólinni á braut sinni um hana. Jörðin er nú um fimm milljón kílómetrum nær sólinni en hún verður við svonefnda sólfirrð í sumar.

Braut jarðarinnar um sólina er sporöskjulaga og því er fjarlægðin á milli hnattanna breytileg eftir árstíma. Sólnánd á sér stað í kringum 3. janúar en sólfirrð í kringum 4. júlí, að því er segir á Stjörnufræðivefnum.

Það er þó ekki þessi breytileiki í fjarlægðinni frá sólinni sem veldur árstíðarskiptum á jörðinni heldur möndulhalli hennar. Á þessum stað í sporbrautinni hallar norðurhvel jarðar frá sólinni og berst þá minna af geislum sólar þangað. Þannig verður vetur á norðurhveli en sumar á suðurhveli sem hallar að sólinni.

Vetrarsólstöður voru á norðurhveli 21. desember. Dagurinn er hér því með skemmsta móti þrátt fyrir að hann sé tekinn að lengja og kaldasti tími ársins í algleymingi. Útgeislun sólarinnar er örlítið meiri við sólnánd. Íbúar á norðurhveli geta því huggað sig við að sú tilviljun að sólnánd ber upp á miðjum vetri mildar hann örlítið.

Þannig verður það þó ekki alltaf því tímasetning sólnándar og firrðar breytist smám saman yfir lengri tíma. Sú stund mun renna upp á sólnánd eigi sér stað um hásumar á norðurhveli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×