Lífið

40 ár frá útgáfu eins stærsta stemmingslagsins

Einhvern veginn svona er stemmingin í laginu Don't Stop Me Now en flestir lesendur hafa líklegast heyrt það lag. nordicphotos/getty
Einhvern veginn svona er stemmingin í laginu Don't Stop Me Now en flestir lesendur hafa líklegast heyrt það lag. nordicphotos/getty
Lagið Don’t Stop Me Now með Queen kom út fyrir heilum 40 árum í dag. Það var ekkert sérstaklega vinsælt þegar það kom út en vann heldur betur á og er í dag notað til að skapa stemmingu í auglýsingum og bíói um allan heim.

Fyrir 40 árum sendi hljómsveitin Queen frá sér smáskífuna Don’t Stop Me Now. Hún náði níunda sæti á breska vinsældalistanum en einungis 86. sæti á þeim ameríska – þar í landi var lagið alls ekki vinsælt en fékk þó dálitla spilun á rokkstöðvum.

Síðan þá hefur lagið einhver veginn haldið vinsældum og verið spilað jafnt og þétt í gegnum árin – það virðist raunar bara verða vinsælla og vinsælla með hverju árinu og líklega spilar það inn í að það hefur verið notað í nánast óteljandi auglýsingum, sjónvarpsþáttum og kvikmyndum. Það hefur verið „koverað“ margoft. Lagið hefur nú náð platínusölu í Bretlandi og var valið þriðja besta lag hljómsveitarinnar Queen í tónlistartímaritinu Rolling Stone.

Líklega eru fá lög sem hafa verið álitin jafn mikið miðjumoð á sínum tíma sem verða svo nánast einkennislag hljómsveitar eins og Don’t Stop Me Now. Lagið undirstrikar margt það sem einkenndi sveitina – píanóið hans Freddies­ Mercury, röddunina í viðlaginu og kraftinn í laginu. 

Blaðamaðurinn Alexis Petridis skrifaði í The Guardian að lagið væri líklegast besta lag sveitarinnar og í því kæmi fram hedónismi Freddies og lauslæti, væri eins og óður hans til lífsgleðinnar. Alexis veltir fyrir sér hvort titill lagsins hafi kannski verið skot á hina meðlimi Queen sem hann segir ekki hafa verið alveg jafn ódannaða.

Það er við hæfi að rifja þetta lag upp enda hljómsveitin Queen heldur betur verið í sviðsljósinu upp á síðkastið eftir að kvikmyndin Bohemian Rhapsody kom út seint í fyrra en hún fjallar um ævi og störf Freddies Mercury. Myndin fékk nokkuð góða dóma þó að tónlistar­aðdáendur hafi verið sammála um að þar hafi kannski ekki verið farið alveg rétt með staðreyndir.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×