Enski boltinn

Sigraði krabbameinið og er nú komin til Chelsea

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ann-Katrin Berger og Emma Hayes.
Ann-Katrin Berger og Emma Hayes. Mynd/Hemasíða Chelseafc
Þjóðverjinn Ann-Katrin Berger er nýjasti leikmaður Chelsea en markvörðurinn skrifaði undir tveggja og hálfs árs samning í dag.

Berger kemur til Chelsea FC Women frá Birmingham City Women en hún var valin í úrvalsliði ensku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð.

Ann-Katrin Berger er 28 ára gömul og spilaði með Birmingham í tvö og hálft ár. Hún hafnaði tilboði um að vera áfram hjá Birmingham en flutti sig frekar suður til London.





Ann-Katrin Berger sigraðist á krabbameini í skjaldkirtli en hún fór í aðgerð í nóvember 2017. Hún snéri aftur í febrúar og vann sér sæti í liði ársins.

„Þetta er nýtt fyrir mig. Ég hlakka til að spila fyrir eitt af bestu félögunum í heimi,“ sagði Ann-Katrin Berger.

Emma Hayes, stjóri Chelsea, er ánægð með liðstyrkinn. „Hún hefur verið besti markvörður deildarinnar undanfarin tvö ár og þá hefur hún spilað bæði í Frakklandi og í Þýskalandi. Hún hefur safnað sér mikilli reynslu og er tilbúinn til að spila fyrir Chelsea,“ sagði Emma Hayes.





Lið Birmingham og Chelsea eru með jafnmörg stig í töflunni en Chelsea er með betri markatölu og situr því í þriðja sætinu.

Ann-Katrin Berger verður liðsfélagi Maríu Þórisdóttur hjá Chelsea og mun berjast um sætið í liðinu við sænska landsliðsmarkvörðinn Hedvig Lindahl.

Berger varð þýskur meistari með Margréti Láru Viðarsdóttur hjá Turbine Potsdam    árið 2012. Frá Potsdam fór hún til Paris Saint-Germain og svo til Birmingham.

Berger var fyrst valin í þýska landsliðið í nóvember síðastliðnum en á enn eftir að spila landsleik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×