Innlent

Ragnheiður Inga nýr rektor Landbúnaðarháskólans

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Ragnheiður Inga Þórarinsdóttir og Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra.
Ragnheiður Inga Þórarinsdóttir og Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra.
Dr. Ragnheiður Inga Þórarinsdóttir hefur verið skipuð rektor Landbúnaðarháskóla Íslands til fimm ára frá 1. janúar 2019. Ragnheiður er verkfræðingur að mennt og var áður framkvæmdastjóri verkfræðistofunnar Svinna-verkfræði sem sinnt hefur ráðgjöf á sviðum umhverfismála, nýsköpunar og rannsókna.

Ragnheiður er með doktorspróf frá Danska Tækniháskólanum og lauk MBA-prófi frá Háskóla Íslands. Hún hefur gegnt stöðu gestaprófessors og gestadósents við Umhverfis- og byggingaverkfræðideild Háskóla Íslands og var aðstoðarorkumálastjóri Orkustofnunar á árunum 2005-2009, að því er segir í tilkynningu á vef Mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

Ragnheiður hefur aukinheldur sinnt ýmsum stjórnar- og nefndarstörfum, m.a. fyrir Rannís, Háskóla Íslands, Matís, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Evrópusambandið og Norska rannsóknaráðið.

Landbúnaðarháskóli Íslands er reistur á grunni öflugrar rannsóknastofnunar og tveggja gróinna menntastofnana á landbúnaðarsviði, Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri og Garðyrkjuskóla ríkisins á Reykjum í Ölfusi. Skólinn tók til starfa í núverandi mynd árið 2005.

Meðal greina sem kenndar eru við skólann eru búfræði, skógfræði, umhverfisskipulag og náttúru- og umhverfisfræði. Námsbrautir skólans eru hvort tveggja á starfsmennta- og háskólasviði og er mikil samlegð á milli skólastiganna.

Sem stendur stunda um 480 nemendur nám við skólann, þar af tæplega 80 á meistara- eða doktorsstigi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×