Erlent

Úkraínska rétttrúnaðarkirkjan slítur sig frá þeirri rússnesku

Andri Eysteinsson skrifar
Bartólomeus I. skrifar hér undir tilskipunina.
Bartólomeus I. skrifar hér undir tilskipunina. EPA/Mykola Lazarenko
Hinni nýstofnsettu úkraínsku rétttrúnaðarkirkju hefur verið veitt sjálfstæði frá rússnesku rétttrúnaðarkirkjunni, úkraínskar kirkjur hafa öldum saman verið undir stjórn kirkjuyfirvalda í Moskvu.

Erkibiskupinn af Konstantínópel sem er æðsti yfirmaður rétttrúnaðarkirknanna, Bartolomeus I. skrifaði undir tilskipun þess efnis í Istanbúl í Tyrklandi í dag. Aðskilnaðurinn mun formlega fara fram í október á þessu ári.

Átök milli ríkjanna hafa haft áhrif á kirkjuna

Bartólomeus I. skrifaði undir tilskipunina í viðurvist forseta Úkraínu, Petro Poroshenko, sem hafði ferðast til Istanbúl gagngert til þess að vera vitni að undirskriftinni. Athöfnin var einnig sýnd í beinni í úkraínsku sjónvarpi.

Plaggið sem skrifað var undir verður afhent Úkraínumönnum á morgun, 6. desember, og verður flutt til Úkraínu.

6. desember er einmitt aðfangadagur jóla rétttrúnaðarkirkjunnar. Búast má við miklum fögnuði í Kænugarði á jóladag, 7. desember, ekki síst vegna áfangans sem náðist í Istanbúl.

Samkvæmt frétt BBC hafa ráðamenn í rússnesku rétttrúnaðarkirkjunni brugðist ókvæða við og hafa lokað á tengsl sín við Bartolomeus I.

Borið hefur á ágreiningi og ósætti innan rétttrúnaðarkirkjunnar rússnesku allt frá falli Sovétríkjanna, einnig hefur ástandið á Krímskaga ýtt undir vilja Úkraínumanna til að skilja við rússnesku rétttrúnaðarkirkjuna.

Ákvörðun um aðskilnað var endanlega tekin á kirkjuþingi í Kíev í desember. Á sama þingi var ákveðið að stofna úkraínsku réttrrúnaðarkirkjuna með sameiningu tveggja af þremur greinum rétttrúnaðarkirkjunnar í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×