Körfubolti

Vísa Twitter-færslu Clinch um dómarana í Keflavík-Njarðvík til aganefndar KKÍ

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lewis Clinch.
Lewis Clinch. Vísir/Bára
Lewis Clinch, leikmaður Grindavíkur í Domino´s deild karla gæti verið í vandræðum vegna þessa sem hann sagði um leik milli tveggja annarra liða í deildinni.  

Stjórn KKÍ ákvað að vísa Twitter-færslu Clinch til Aga- og úrskurðanefndar sambandsins og verður málið líklega tekið fyrir í byrjun næstu viku. Grindvíkingar fengu að vita af þessu í gær og fá að sjálfsögðu sinn andmælarétt í málinu.

Málið er óvenjulegt enda er þarna leikmaður að tjá sig um leik sem hann tók ekki þátt í sjálfur.

Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, staðfesti við Vísi að stjórn KKÍ hafði ákveðið að nýta sér þennan rétt.

„Stjórn KKÍ finnst þarna vera að vega að starfsheiðri dómara, “ sagði Hannes. Hann segir að stjórnin hafi ekki viljað nýta sér þessa heimild sína í gegnum tíðina en að þessu sinni hafi ekki verið hjá því komist. Farið er eftir 14. grein í reglugerð um aga- og úrskurðamál sem sjá má hér fyrir neðan.

14. ÓSÆMILEGA FRAMKOMA

Stjórn og framkvæmdastjóra KKÍ skal vísa til aga- og úrskurðarnefndar atvikum sem skaðað geta ímynd körfuknattleiks eða þeirra sem þátt taka í leiknum. Slík atvik hafa þá ekki komið fram í atvikaskýrslum dómara á leiknum en geta verið hvers kyns ósæmileg framkoma á leikstað eða á annan hátt opinberlega. Þegar talað er um opinberlega er átt við alla tegundir fjölmiðla; sjónvarpsmiðla, útvarpsmiðla, prentmiðla, netmiðla, heimasíður aðildarfélaga KKÍ og samfélagsmiðla.



Lewis Clinch spilar með Grindavík og þekkir vel til hér á landi eftir að hafa spilað hér í nokkur tímabil. Hann hafði sterkar skoðanir á stórleik tólftu umferðar Domino´s deildarinnar.

Lewis Clinch tjáði sig um dómarana í Reykjanesbæjarslag Keflavíkur og Njarðvíkur á mánudagskvöldið þar sem Njarðvíkingar höfðu betur í hörkuleik.

Færstu Lewis Clinch má sjá hér fyrir neðan en þar skrifaði hann: „The refs in Iceland showed favoritism in the njarvaik vs kef game. Seems like they wanted Njarvik to win“ sem er á íslensku:



„Íslensku dómararnir héldu með Njarðvík í leik Njarðvíkur og Keflavíkur. Það leit út fyrir að þeir vildu að Njarðvík myndi vinna leikinn.“

Clinch var ekki alveg hættur heldur bætti því við að honum væri í raun alveg saman hver myndi vinna því að hann hataði bæði félögin.





Lewis Clinch er með 17,8 stig, 4,5 fráköst og 3,8 stoðsendingar að meðaltali í 10 leikjum með Grindavík í Domino´s deild karla í vetur. Hann var með 21 stig, 8 fráköst og 6 stoðsendingar í sigri á Breiðablik á síðasta leik.  Hann spilaði líka með Grindavík tímabilið 2013-14 og 2016-17.

„Við reynum að sýna því skilning sem sagt er í hita leiksins eða strax eftir leik en þarna er maður að tjá sig sem kemur ekki nálægt leiknum. Það var ekki hægt annað en að senda þetta til Aga- og úrskurðanefndar,“ sagði Hannes.  

Aga- og úrskurðanefnd tekur væntanlega málið fyrir í byrjun næstu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×