Innlent

Útlit fyrir hið ágætasta áramótaveður

Samúel Karl Ólason skrifar
Útlit er fyrir hið ágætasta áramótaveður á mestöllu landinu og þá ekki síst fyrir þá sem vilja upplifa brennur og flugelda.
Útlit er fyrir hið ágætasta áramótaveður á mestöllu landinu og þá ekki síst fyrir þá sem vilja upplifa brennur og flugelda. Fréttablaðið/Ernir
Veðurstofa Íslands varar við slæmu veðri á morgun, gamlársdag, víða um land. Á norðanverðu landinu er von á norðanstórhríð og hvassviðri eða stormi fyrir sunnan. Þó er búist við því að lægja muni víðast hvar og rofa til annað kvöld. Því sé útlit fyrir hið ágætasta áramótaveður á mestöllu landinu og þá ekki síst fyrir þá sem vilja upplifa brennur og flugelda.

Í dag gengur er búist við 10-18 m/s austanátt með slyddu en síðan rigningu á sunnanverðu landinu. Von er á hægari vindi og þurrki fyrir norðan og að þar fari að snjóa upp úr hádegi. Snjókoman muni þó verða að slyddu eða rigningu seinna meir.

Upp úr miðnætti spáir Veðurstofa Íslands því að vindurinn snúist í norðan 20-28 m/s, fyrst vestan til á landinu en síðar fyrir austan. Þá muni kólna í veðri. Hvassast verði á Vestfjörðum, Austfjörðum og undir Vatnajökli. Talsverð snjókoma eða skafrenningur verði á norðanverðu landinu en slydda eða rigning með köflum syðra.

Annað kvöld muni lægja víðast hvar og rofa til og frysta um allt land.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á mánudag (gamlársdagur):

Norðan 20-28 m/s og snjókoma eða skafrenningur um morguninn, hvassast á Vestfjörðum, en yfirleitt hægari fyrir sunnan og slydda með köflum. Dregur ört úr vindi og ofankomu um V-til eftir hádegi, en hvessir verulega eystra, norðan 20-28 m/s og blindhríð þar seinni partinn, hvassast undir Vatnajökli. Hiti 0 til 5 stig S-lands, en vægt frost fyrir norðan. Lægir síðan víðast hvar og kólnar þegar nálgast miðnætti.

Á þriðjudag (nýársdagur):

Hægviðri, léttskýjað og talsvert frost framan af degi, en síðan vaxandi suðaustanátt og þykknar upp, 10-15 m/s og slydda en síðar rigning S- og V-til um kvöldið og hlýnar í veðri.

Á miðvikudag, fimmtudag, föstudag og laugardag:

Ákveðnar suðlægar áttir og víða vætusamt og hlýtt, en lengst af þurrt NA-lands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×