Erlent

Tveimur hótelstarfsmönnum sagt upp fyrir að henda svörtum gesti út

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
DoubleTree hótelið í Oregon.
DoubleTree hótelið í Oregon. Google Maps
DoubleTree hótelið í Portland, sem rekið er af risahótelkeðjunni Hilton, hefur sagt upp tveimur starfsmönnum sínum sem sakaðir höfðu verið um kynþáttafordóma eftir að myndband náðist af þeim þar sem þeir gerðu þeldökkum hótelgesti að yfirgefa hótelið. BBC greinir frá þessu.

Starfsmennirnir sögðu manninn, Jermaine Massey, vera ógn við öryggi annarra gesta þar sem hann „slóraði“ í anddyri hótelsins. Massey sagðist aðeins hafa verið að svara mikilvægu símtali í annars tómu anddyrinu.

Hann birti á Þorláksmessu myndband sem hann tók af atvikinu á Twitter. Í færslunni sagðist hann hafa verið „tekinn fyrir á grundvelli kynþáttar og mismunað fyrir að taka símtal í anddyrinu.“

Í myndbandinu af atvikinu, sem átti sér stað 22. desember, sést annar starfsmaðurinn, öryggisvörður sem fjölmiðlar vestanhafs greina frá að heiti Earl Meyers, þar sem hann stendur yfir Massey og skipar honum að yfirgefa hótelið. Engu máli virðist þá skipta að Massey segist vera gestur á hótelinu.

„Ekki lengur,“ svaraði Meyers þá og tilkynnti að búið væri að hafa samband við lögregluna vegna Massey.

Lögmaður Massey segir hann hafa sýnt fram á hóteldvöl sína með því að framvísa lykilkorti sem gekk að herbergi hans en allt hafi komið fyrir ekki. Hann sagði eina glæpinn sem Massey hefði gerst sekur um vera „að hringja í móður sína og vera svartur á sama tíma.“

DoubleTree hótelið birti í gær Twitter-færslu þar sem greint var frá því að tveimur starfsmönnum hótelsins hefði verið sagt upp vegna málsins og að hótelið liti hvers konar kynþáttamismunun alvarlegum augum. Þá var Massey beðinn innilegrar afsökunar.

Margir netverjar hafa svarað færslu hótelsins fullum hálsi og gagnrýna seinagang þess við að gefa út afsökunarbeiðni. Telja margir að afsökunarbeiðnin hafi aðeins verið gefin út til þess að bjarga ímynd hótelsins eftir að málið vakti athygli fjölmiðla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×