Innlent

Yfirlýsing vegna pistils forstjóra HSu

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Fréttastofa Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar bendir á að í upphaflegu viðtali við Herdísi og í yfirlýsingu stofnunarinnar kemur meðal annars fram að fækka eigi stöðugildum sjúkraflutningamanna á næsta ári og að álag sé sívaxandi.
Fréttastofa Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar bendir á að í upphaflegu viðtali við Herdísi og í yfirlýsingu stofnunarinnar kemur meðal annars fram að fækka eigi stöðugildum sjúkraflutningamanna á næsta ári og að álag sé sívaxandi. Vísir/Vilhelm
Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri Heilbrigðisstofunnar Suðurlands, segir í yfirlýsingu á vef stofnunarinnar í gærkvöldi að fyrirsögn á frétt Vísis um fækkun sjúkraflutningamanna á Suðurlandi sé villandi og ósönn. Í fyrirsögninni segir að fækka eigi sjúkraflutningamönnum á svæðinu þrátt fyrir fleiri alvarleg slys.

Í yfirlýsingunni segir Herdís: „Það er mikill ábyrgðarhluti hjá fréttamanni að dreifa vísvitandi villandi fréttum af raunverulegri stöðu sjúkraflutninga á Suðurlandi og sá með því tortryggni. Hafa skal það sem sannara reynist.“

Yfirlýsingin er birt fyrir hönd framkvæmdastjórnar Heilbrigðisstofnunar Suðurlands. Í henni segir að sjúkraflutningamönnum hafi fjölgað frá 2015 úr 17,2 stöðugildum í 27,3 á þessu ári. Eftir breytingar á vaktafyrirkomulagi verði stöðugildin 24,1 þann 1. febrúar, 2019.

„Fyrirsögn fréttarinnar er beinlínis ósönn og til þess eins gerð að valda íbúum óþarfa áhyggjum og kasta rýrð á fagleg og framúrskarandi vinnubrögð sjúkraflutningamanna á Suðurlandi sem starfa þar við afar erfiðar aðstæður og sívaxandi álag,“ segir í yfirlýsingunni.

Yfirlýsingu Herdísar á vef Heilbrigðisstofnunar Suðurlands má lesa hér.



Frétt Stöðvar 2 og Vísis í gær má sjá og lesa hér.



Fréttastofa Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar bendir á að í upphaflegu viðtali við Herdísi og í yfirlýsingu stofnunarinnar kemur meðal annars fram að fækka eigi stöðugildum sjúkraflutningamanna á næsta ári og að álag sé sívaxandi. Fréttastofa stendur við fréttina og fyrirsögn hennar.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×