Innlent

Gefa heimilis­lausum föt í frostinu

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Sannkallaður jólakærleikur ríkir í miðbænum þar sem búið er að koma fyrir snögum, en á þá getur fólk hengt föt ætluð heimilislausum. Veggurinn var reistur í minningu Þorbjarnar Hauks Liljarssonar sem lést á götunni fyrir tveimur mánuðum.

Hugmyndina fékk Guðný fyrir tveimur dögum síðan, en hún sá sambærilega framkvæmd í Svíþjóð.

„Ég sá svona framkvæmd á Facebook þar sem búið var að hengja upp snaga í Svíþjóð. Þá hugsaði ég að við þyrftum að fá svona til Íslands í kuldanum fyrir alla þá sem eru heimilislausir. Það var eins og við manninn mælt. Til liðs við mig komu byggingaverktakar, auglýsingafólk og annað fólk sem ég þekki og hjálpuðu mér að setja þetta upp á tveimur dögum,“ sagði Guðný Pálsdóttir.

Öllum er frjálst að koma og gefa yfirhafnir, ullarsokka og önnur hlý föt sem ætluð eru heimilislausum. Verkefnið er þeim ansi kært en sonur Guðrúnar lést á götunni fyrir tveimur mánuðum síðan. Í dag er fjögurra gráðu frost úti og því ljóst að verkefnið mun koma mörgum að góðum notum.

Verkefnið er Guðrúnu Hauksdóttur Schmidt kært.Vísir
„Þetta á ekki að vera flókið. Það er enginn sem situr hér og njósnar um verkefnið. En við ætlumst til þess að þeir sem minna mega sín, njóti verkefnisins,“ segir Guðný.

„Það er ótrúlegt, fólk labbar framhjá og gefur föt. Útlendingar spyrja hvað sé um að vera hér, taka af sér húfuna og vettlingana og hengja á snagann. Þetta er með ólíkindum. Sannkallaður jólakærleikur,“ sagði Guðrún Hauksdóttir Schmidt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×