Innlent

Búist við strekkingi í kvöld

Birgir Olgeirsson skrifar
Jólakötturinn verður líkast til ekki baðaður í snjó þessi jólin.
Jólakötturinn verður líkast til ekki baðaður í snjó þessi jólin. vísir/vilhelm
Útlit er fyrir hríðarveður á Öxnadalsheiði seinnipartinn og einkum í kvöld. Á vef Vegagerðarinnar kemur fram að skyggni og aðstæður fari versnandi. Í nótt og fyrramálið mun hvessa umtalsvert með kófi og lélegu skyggni á háheiðinni. 

Veðurstofa Íslands segir að í dag verði suðvestan gola eða kaldi og lítils háttar rigning eða snjókoma á vestanverðu landinu. Seint í dag verður suðvestanáttin orðin strekkingur að styrk nokkuð víða og rigning með köflum, en áfram þurrt eystra. Það hlýnar smám saman í veðri, hiti 1 til 6 stig í kvöld.

Á morgun má áfram búast við suðvestan strekkingi, en það herðir á vindi norðanlands og þar má búast við hvassviðri eða jafnvel stormi á stöku stað. Útlit er fyrir skýjað veður um allt land og úrkomulítið, þó má nefna að horfur eru á rigningu norðvestan til fyrripart dags. Það heldur áfram að hlýna og hita á morgun er spáð á bilinu 3 til 10 stig, hlýjast á Austfjörðum. Annað kvöld dregur úr vindi á landinu og er það vel við hæfi þegar heilög jól eru gengin í garð.

Skemmst er frá því að segja að á jóladag sem og á annan og þriðja í jólum er útlit fyrir mildar suðlægar áttir með vætusömu veðri, en þurrt að kalla á Norður- og Austurlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×