Innlent

Sumarhús brann til kaldra kola

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning upp úr klukkan sex í morgun um alelda bústað en það var fólk í sumarbústað í nágrenninu sem tilkynnti um eldinn.
Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning upp úr klukkan sex í morgun um alelda bústað en það var fólk í sumarbústað í nágrenninu sem tilkynnti um eldinn. Vísir/vilhelm
Sumarhús brann til kaldra kola í sumarhúsabyggð við Kaldárselsveg í Hafnarfirði í nótt.

Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning upp úr klukkan sex í morgun um alelda bústað en það var fólk í sumarbústað í nágrenninu sem tilkynnti um eldinn.

Slökkvilið ásamt dælubíl fór á vettvang og var bústaðurinn brunninn til grunna þegar komið var á vettvang.

Slökkvistarfi var lokið um klukkan ellefu í morgun og hefur brunavettvangur verið afhentur lögreglu til rannsóknar. Ekki liggur fyrir að svo stöddu hvað olli eldsupptökum.

Ekki er vitað til þess að nokkur hafi verið í húsinu.  

Alls sinnti slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu um 30 útköllum í nótt, þar af 27 vegna sjúkraflutninga. Þá sinnti slökkviliðið verkefnum vegna reyklosunar, vatnstjóns og elds í ruslatunnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×