Fótbolti

Rúnar Alex heimsótti liðið sitt í Suður-Afríku og pabbi gaf þeim KR-treyjur

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Krakkarnir í Stellenbosch komnir í KR-gallann.
Krakkarnir í Stellenbosch komnir í KR-gallann. mynd/total football
Rúnar Alex Rúnarsson, markvörður franska 1. deildar liðsins Dijon, heimsótti nú um jólin liðið sem hann styrkir í Suður-Afríku og tók léttan bolta með krökkunum ungu sem virtust njóta heimsóknarinnar.

Liðið er í bænum Stellenbosch í Suður-Afríku þar sem búa um 19.000 manns en Rúnar fór ásamt föður sínum, Rúnari Kristinssyni, og annarri KR-goðsögn, Bjarna Guðjónssyni.

Rúnar Kristinsson, þjálfari KR í Pepsi-deildinni, mætti að sjálfsögðu með KR-treyjur fyrir krakkana sem sem geta nú æft í nýjum treyjum frá vesturbæjarstórveldinu.

Rúnar Alex gekk í fyrra til liðs við góðgerðarsamtökin Common Goal sem Juan Mata, leikmaður Manchester United, setti á laggirnar síðasta sumar eftir ferð til Mumbai á Indlandi þar sem að hann varð vitni að mikilli fátækt.

Leikmenn á borð við Mats Hummels, Giorgio Chiellini, Alex Morgan, Kasper Schmeichel og Shinji Kagawa eru hluti af Common Goal en allir 389 meðlimirnir gefa eitt prósent launa sinna til góðgerðarmála.

Rúnar Alex varð hluti af Common Goal í nóvember á síðasta ári þegar að hann var leikmaður Nordsjælland í Danmörku en í sumar varð hann dýrasti íslenski markvörður sögunnar þegar að Dijon keypti hann á 200 milljónir íslenskra króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×