Körfubolti

Sænskur körfuboltastrákur hneig niður í miðjum leik og lést viku síðar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Emil Isovic
Emil Isovic Mynd/hpusharks.com
Sænski körfuboltamaðurinn Emil Isovic lést á sjúkrahúsi í Honolulu á Hawaiieyjum í gær. Viku áður hafði hann hnigið niður skömmu eftir að hann hafði komið útaf í leik með skólaliði sínu.

Emil Isovic var aðeins 21 árs gamall og hafði spilað með unglingalandsliðum Svía. Í vetur spilaði hann með körfuboltaliði Hawaii Pacific háskólans.

Sænska körfuboltasambandið minnist Emil Isovic á heimasíðu sinni sem og skóli hans á samfélagsmiðlum sínum.



Hawaii Pacific skólinn var að spila við Southern Nazarene skólann 18. desember síðastliðinn en þetta var síðasti leikurinn fyrir jól.

Þegar 6:52 mínútur voru eftir af leiknum var staðan 22-12 fyrir SNU. Emil Isovic var nýkominn af velli og var sestur á bekkinn þegar hann hneig niður. Reynt var að huga að honum á gólfinu áður sjúkraliðið kom á staðinn. Eftir þetta atvik var ákveðið að flauta leikinn af. Leikjum liðsins síðan hefur einnig verið aflýst.

Emil Isovic var fluttur á sjúkrahús en hann náði aldrei aftur meðvitund og lést síðan rétt rúmri viku síðar umrkringdur fjölskyldu og vinum.





Emil Isovic spilaði síðast með sænska 20 ára landsliðinu á EM sumarið 2017 og einn af leikjum hans var á móti Íslandi í sextán liða úrslitunum. Hann lék með Malbas liðinu í sænsku úrvalsdeildinni áður en hann fór í skóla til Bandaríkjanna.

Emil Isovic var á sínu öðru ári í skólanum og að spila 12,9 mínútur að meðaltali í leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×