Bíó og sjónvarp

Áhorfendur ráða söguframvindunni í gagnvirkri Black Mirror-kvikmynd

Birgir Olgeirsson skrifar
Grunnsagan í þessari mynd er um 90 mínútur að lengd en með öllum valmöguleikunum er hún um tveir og hálfur tími að lengd.
Grunnsagan í þessari mynd er um 90 mínútur að lengd en með öllum valmöguleikunum er hún um tveir og hálfur tími að lengd.
Nýjasta viðbótin við Black Mirror-söguheiminn er gagnvirk kvikmynd þar sem áhorfendur geta valið um framvindu sögunnar. Um er að ræða 90 mínútna langa mynd sem hefur fengið heitið Black Mirror: Bandersnatch, en Netflix auglýsir þessa viðbót sem fyrstu gagnvirku kvikmynd streymisveitunnar sem beint er að fullorðnum.

Gagnvirkar kvikmyndir hafa áður litið dagsins ljós en þannig var það með teiknimyndina Puss in Boots: Trapped in an Epic Tale.

Black Mirror: Bandersnatch hefst á stuttri sýnikennslu þar sem áhorfendur fá útskýringu á því hvernig þetta virkar allt saman. Fá áhorfendur val um að velja á milli tveggja kosta í hvert sinn en framvindan breytist eftir því hvað verður fyrir valinu.

Áhorfendur fá tíu sekúndur til að velja á milli, ef þeir velja ekki þá er valið fyrir þá. Höfundur Black Mirror, Charlie Brooker, sagðist hafa leyft myndinni að rúlla í gegn án þess að velja.

Hér fyrir neðan munu koma fram upplýsingar sem geta spillt áhorfi þeirra sem eiga eftir að sjá þessa mynd. Er þeim ráðlagt frá því að lesa lengra.

Þessi mynd, sem hefur verið gerð aðgengileg á Netflix, hefur fimm mismunandi endalok, allt fer það eftir vali hvers áhorfanda hvaða endi hann fær. Ef einhver vill sjá allar útgáfurnar verður hann einfaldlega að velja mismunandi kosti í hvert sinn. Grunnsaga myndarinnar er 90 mínútur að lengd, en heildarlengd alls efnisins er upp undir tveir og hálfur klukkutími.

Myndin gerist á níunda áratug síðustu aldar og segir frá ungum forritara sem vonast til að geta skapað tölvuleik sem mun slá í gegn þar sem spilarar fá val um söguframvinduna. Byggir hann tölvuleikinn á barnabók sem hann fékk í æsku þar sem lesendur gátu valið um framvindu.

Fionn Whiehead, sem lék í Dunkirk, leikur forritarann unga en aðrir leikarar eru Will Poulter, Craig Parkinson, Alice Lowe og Asim Chaudhry.

The Hollywood Reporter greinir frá því að myndin hafi verið um tvö ár í framleiðslu en tökur hennar stóðu yfir í 35 daga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×