Erlent

Fulltrúi mannkynsins kominn út fyrir áhrifasvæði sólarinnar í annað sinn

Kjartan Kjartansson skrifar
Teikning af stöðu Voyager-geimfaranna rétt handan sólvindhvolfsins.
Teikning af stöðu Voyager-geimfaranna rétt handan sólvindhvolfsins. NASA/JPL-Caltech
Bandaríska geimfarið Voyager 2 er nú komið út fyrir sólvindshvolfið svonefnda og flýgur nú í geimnum á milli stjarnanna. Þetta er í annað skiptið sem manngerður hlutur kemst út fyrir áhrifasvæði sólarinnar en systurfarið Voyager 1 gerði það fyrst fyrir sex árum.

Vísindamenn bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA telja að Voyager 2 hafi komist út fyrir sólvindshvolfið 5. nóvember. Geimfarið er nú í rúmlega átján milljarða kílómetra fjarlægð frá jörðinni en 41 ár er síðan því var skotið á loft. Í þessari fjarlægð tekur það gögn um sextán og hálfa klukkustund að berast á milli geimfarsins og jarðar á hraða ljóssins.

Sólvindshvolfið er áhrifasvæði sólarinnar okkar sem nær langt út fyrir braut ystu reikistjarnanna. Í frétt á vef NASA kemur fram að skýrasta vísbendingin um að Voyager 2 sé kominn út fyrir það berist frá rafgasmælinum um borð. Mælirinn notar rafhleðslu gassins til þess að greina hraða, þéttleika, hitastig, þrýsting og flæði sólvindsins.

Þar til nýlega einkenndist geimurinn í kringum geimfarið af rafgasinu sem við köllum sólvindinn. Frá því í byrjun nóvember hefur mælirinn sýnt að sólvindurinn hægir verulega á sér. Ekkert flæði hefur mælst síðan. Ólíkt Voyager 1 er mælitæki um borð í Voyager 2 sem getur gert fyrstu rannsóknir sinnar tegundar á geimnum fyrir utan sólvindshvolfið.

Í spilaranum hér fyrir neðan er skýringarmyndband NASA um för Voyager 2 út fyrir sólvindshvolfið.

Gæti tekið tugi þúsunda ára að komast út úr sólkerfinu

Þrátt fyrir að systurförin séu komin út fyrir sólvindshvolfið eru þau enn innan sólkerfisins okkar. Ystu mörk þess eru talin handan Oort-skýsins svonefnda. Skýið er safn lítill fyrirbæra sem þyngdarkraftur sólarinnar hefur áhrif á. Talið er að það taki Voyager 2 um 300 ár að komast að innri mörkum Oort-skýsins. Það gæti tekið allt að 30.000 ár að komast út fyrir skýið.

Voyager-leiðangrarnir eru einhver merkustu könnunarleiðangrar mannkynssögunnar. Geimförin heimsóttu gas- og ísrisana fjóra. Nær allar upplýsingar sem menn hafa um ystu reikistjörnurnar tvær, Úranus og Neptúnus koma frá heimsókn Voyager 2 þangað.

Voyager 2 er jafnframt langlífasti geimleiðangur NASA. Geimfarinu var skotið á loft 20. ágúst árið 1977, sextán dögum á undan Voyager 1. Það fór lengri leið í gegnum sólkerfið til að geta heimsótt Úranus og Neptúnus. Því varð Voyager 1 fyrri til að komast út fyrir sólvindshvolfið árið 2012.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×