Innlent

Vaðlaheiðargöng opnuð 12. janúar og ferðin kostar 1500 krónur

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Formleg opnun Vaðlaheiðarganga verður 12. janúar næstkomandi. Vegggjöld verða innheimt rafrænt en ekki í gjaldskýli.

Mögulega verður unnt að opna göngin fyrir umferð undir lok desember en það ræðst af því hvernig miðar við lokafrágang ganganna. Gjaldtaka hefst þó ekki fyrr en 2. janúar. Fyrirkomulag gjaldtökunnar og opnun ganganna var kynnt á fundi norðan heiða í morgun.

Gjaldtakan er þrenns konar.

Í fyrsta lagi í gegnum aðganga á veggjald.is. Stofnaður er aðgangur og þar settar inn greiðslukortaupplýsingar og þau bílnúmer sem óskað er eftir að greiða fyrir. Við hverja ferð í gegnum göngin skuldfærist veggjaldið á viðkomandi greiðslukort. Hægt er að kaupa fyrirframgreiddar 10, 40 eða 100 ferðir á afsláttarkjörum. Því fleiri ferðir sem keyptar eru þeim mun lægri upphæð greiðist fyrir hverja ferð.

Stök ferð fólkbíls um göngin mun kosta 1500 krónur. 10 ferðir kosta 12.500 krónur eða 1250 krónur ferðin. 40 ferðir kosta 36.000 krónur eða 900 krónur ferðin. 100 ferðir kosta 70.000 krónur eða 700 krónur ferðin.

Í öðru lagi er hægt að kaupa stakar ferðir á veggjald.is eða tunnel.is eða með appi allt að þremur tímum áður eða eftir að ekið er í gegnum göngin.

Í þriðja lagi, ef ferð er ekki greidd innan þriggja tíma frá því að ekið er í gegnum göngin verður veggjaldið innheimt af skráðum umráðamanni ökutækis að viðbættu þúsund króna álagi.


Tengdar fréttir

Ekki þarf að stansa til að aka um Vaðlaheiðargöng

Greiðsla fyrir að aka um Vaðlaheiðargöngin verður rafræn og mun þar af leiðandi engin mönnuð stöð vera við annan enda ganganna til að rukka ökumenn. Hægt verður að kaupa miða í gegnum göngin á netinu eða í appi í snjalltækjum. Þeir sem greiða ekki en fara um göngin fá sendan greiðsluseðil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×