Menning

Segja það mikil vonbrigði fyrir aðdáendur Jóhanns að hann komi ekki til greina á Óskarnum

Jóhann Jóhannsson var 48 ára þegar hann lést í febrúar síðastliðnum.
Jóhann Jóhannsson var 48 ára þegar hann lést í febrúar síðastliðnum. Vísir/Getty
Jóhann Jóhannsson  heitinn verður ekki á meðal þeirra sem verða tilnefndir til Óskarsverðlauna fyrir kvikmyndatónlist þegar tilkynnt verður hverjar hljóta tilnefningu á mánudag. 

Greint er frá þessu á vef IndiWire  en yfirgagnrýnandi miðilsins hafði kallað eftir því að Jóhann yrði tilnefndur fyrir tónlistina sem hann samdi fyrir kvikmyndina Mandy. Eru þetta mikil vonbrigði fyrir aðdáendur Jóhanns að mati IndieWire.

Gagnrýnandinn heitir Eric Kohn en hann segir tónlist Jóhanns við Mandy vera eina af bestu kvikmyndatónsmíðum ársins. Er því haldið fram á IndieWire að þetta séu mikil vonbrigði fyrir aðdáendur Jóhanns.

Variety greindi frá því fyrr í vikunni að Mandy hefði verið útilokuð frá Óskarsverðlaununum því hún var gerð aðgengileg á streymisveitum á meðan meðlimir bandarísku kvikmyndaakademíunnar gátu enn greitt atkvæði um hvaða kvikmyndatónskáld myndu hljóta tilnefningu til Óskarsverðlauna.

Tónlist Jóhanns við Mandy var nýlega sett í þriðja sæti yfir bestu kvikmyndatónlist ársins á vef IndieWire.

Jóhann lést í febrúar síðastliðnum langt fyrir aldur fram. Hann var aðeins 48 ára gamall en hann féll frá skömmu eftir að Mandy hafði verið frumsýnd á Sundance-kvikmyndahátíðinni í Bandaríkjunum. 

Hann hlaut mikið lof fyrir verk sín en hann var tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir tónlist í kvikmyndunum Sicario og The Theory of Everything. Hann hlaut Golden Globe-verðlaunin fyrir tónlistina í Theory of Everything en hann var valinn tónskáld ársins á World Soundtrack-verðlaunahátíðinni fyrr á þessu ári. 

Á vef IndieWire er því haldið fram tónlist Jóhanns hefði verið helsta von Mandy um að hreppa Óskarsverðlaunatilnefningu. Myndin var tekin til almennra sýninga í Bandaríkjunum í 13. september síðastliðinn áður en hún varð aðgengileg á streymisveitum.

Mandy segir frá manni sem leitar hefnda eftir að eiginkona hans er myrt á hrottafenginn hátt af djöfladýrkendum. Óskarsverðlaunahafinn Nicolas Cage fer með aðalhlutverk myndarinnar ásamt Andreu Riseborough

Leikstjóri myndarinnar er Panos Cosmatos en hann sagði við IndieWire að hann hefði lengi dáðst að verkum Jóhanns og nefnir þar sérstaklega tónlist hans við Sicario. Hann segir fráfall Jóhanns mikinn missi. Á milli þeirra tókst mikill vinskapur á meðan þeir unnu að Mandy en Cosmatos er þeirrar skoðunar að þeir hefðu getað gert stórkostlega hluti saman hefði samvinna þeirra staðið yfir lengur. 

Þeir hittust aðeins einu sinni í persónu en töluðust oft við í síma á meðan Jóhann samdi tónlistina. Cosmatos sagðist hafa lýst því fyrir Jóhanni hvað hann hafði í huga.

Leikstjórinn Panos Cosmatos.Vísir/Getty
Í opnunarsenu myndarinnar fá áhorfendur að sjá hið útópíska líf sem aðalpersónurnar lifa áður en hörmungarnar dynja yfir.

„Ég sagði við hann: Ég vil að þessi sena sé eins og maður sé ellefu ára gamall, sitjandi í baksæti í Trans Am stóra bróður þíns, og hann er að reykja gras og þú finnur lyktina af vanillu-loftfrískaranum,“ rifjar Cosmatos upp.

Hann segir Jóhann hafa þagað í smá stund áður en hann svaraði: „Ég veit nákvæmlega hvað þú átt við.“


Tengdar fréttir

Jóhann Jóhannsson látinn

Jóhann Jóhannsson tónskáld er látinn. Fannst hann látinn á heimili sínu í Berlín í gær

Jóhanni lýst sem hlýjum og einstökum

Jóhann Jóhannsson tónskáld lést 9. febrúar, 48 ára að aldri. Það er óhætt að segja að ferill Jóhanns sé glæstur og magnaður og hér verður stiklað á stóru. Lífið heyrði í nokkrum vinum og kollegum Jóhanns sem minnast hans með hlýhug.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×