Innlent

Brýndi þingheim að standa vörð um lífsgæði aldraðra

Kristján Már Unnarsson skrifar
Ellert B. Schram í ræðustól Alþingis í dag.
Ellert B. Schram í ræðustól Alþingis í dag. Mynd/Alþingi.
47 árum eftir að hann flutti jómfrúarræðu sína á Alþingi, þá 32 ára gamall, steig Ellert B. Schram á ný í ræðustól Alþingis í dag, nú 79 ára gamall. Í liðlega tveggja mínútna ávarpi skoraði Ellert á þingheim að standa vörð um lífsgæði eldri borgara. Frá þessu var greint í fréttum Stöðvar 2.

„Ég hef fengið tækifæri til að setjast á þingbekk í nokkra daga. Mér finnst það skemmtilegt og ekki síst að fá tækifæri til að koma hingað sem fulltrúi eldri borgara því að ég þykist eiga nokkurt erindi til ykkar,” sagði Ellert og nefndi að ellilífeyrir almannatrygginga væri nú 239.500 krónur.

„Nú er ég ekki kominn hingað til að rífast eða skammast vegna þess að ég þykist vita að langflest ykkar hér á Alþingi eru velviljuð og eruð mér sammála um að taka þurfi til höndum og bjóða eldri borgurum upp á lífsgæði og áhyggjulaust ævikvöld. Elsta kynslóðin má ekki og á ekki að verða út undan.”

Ávarpi sínu lauk Ellert með þessum orðum:

„Ég kem í þennan gamla góða ræðustól til að skora á ykkur að standa vörð um lífsgæðin og sinna því fólki sem komið er til ára sinna. Þótt ég sé sjálfur komin til aldurs og elli er erindið af minni hálfu hingað í þingsalinn það eitt, hvar í flokki sem þið standið, að sameinast um að aldraðir fái lifað og dáið með reisn.”

Hér má sjá frétt Stöðvar 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×