Viðskipti innlent

Metár í fjölda ferðamanna með sex prósenta aukningu milli ára

Kristján Már Unnarsson skrifar
Ferðamenn í miðborg Reykjavíkur að vetrarlagi.
Ferðamenn í miðborg Reykjavíkur að vetrarlagi. Fréttablaðið
Árið 2018 er þegar orðið metár í fjölda ferðamanna, en ferðamannafjöldinn fyrstu ellefu mánuði ársins um Leifsstöð var álíka mikill og allt árið í fyrra. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2. 

Nýjustu tölur frá Ferðamálastofu um brottfarir erlendra farþega frá Íslandi um Keflavíkurflugvöll sýna að ekkert lát er á góðærinu í ferðaþjónustu. Tölurnar fyrir nóvember sýna 150 þúsund ferðamenn, fyrir þennan eina mánuð, sem er athyglisvert fyrir vetrarmánuð í skammdegi því það eru fleiri ferðamenn en til dæmis komu í júní 2015, bjartasta sumarmánuðinum, þegar 137 þúsund ferðamenn fóru af landinu um Leifsstöð.

Þegar tölurnar fyrstu ellefu mánuði þessa árs eru bornar saman við fyrri ár virðist raunar lítil innistæða fyrir bölsýnistali. Fjöldinn á tímabilinu janúar til nóvember fór úr innan við milljón ferðamönnum árið 2014 og yfir tvær milljónir í fyrra og núna í ár er fjöldinn fyrstu ellefu mánuðina kominn í nærri 2,2 milljónir ferðamanna.

Síðasta ár var metár, með 2,2 milljónir ferðamanna allt árið. Fjölgunin fyrstu ellefu mánuði þessa árs nemur 5,8 prósentum, og stefnir heildarfjöldinn þetta árið yfir 2,3 milljónir ferðamanna, 2018 verður því enn eitt metárið.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:






Fleiri fréttir

Sjá meira


×