Sport

Björgvin þriðji en Sara sjötta eftir fyrsta daginn í Dúbaí

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir eftir grein númer tvö.
Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir eftir grein númer tvö. Skjámynd/Youtube/Dubai CrossFit Championship
Fyrsti keppnisdagurinn á Crossfit mótinu í Dúbaí, Dubai CrossFit Championship, er nú búinn en tvær greinar fóru fram í dag. Ragnheiður Sara vann fyrstu greinina en datt niður töfluna í grein tvö. Í boði er meðal annars sæti á heimsleikunum í ágúst.

Björgvin Karl Guðmundsson er í þriðja sæti eftir fyrstu tvær greinarnar á mótinu. Hann er með 170 stig og einu stigi á undan margfalda Crossfit meistaranum Mathew Frasier.

Þeir Alex Kotoulas frá Grikkkland og Matt Mcleod frá Ástralíu eru efstir og jafnir eftir tvær greinar með 190 stig af 200 mögulegum. Alex Kotoulas vann aðra greina en varð þriðji í hinni en Matt Mcleod náði öðru sæti í báðum greinum.

Björgvin Karl varð fjórði í báðum greinum og fékk því 85 stig fyrir þær báðar. Hann er 20 stigum á eftir þessum efstu tveimur.

Í fyrstu greininni var unnið með tvær lyftingaæfingar með ketilbjöllur og svo 350 metra sjósund í framhaldi af þeim en grein númer tvö var sambland af 800 metra hlaupi á hlaupabretti og 350 metra sjósundi.

Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir vann fyrstu greinina og fékk því hundrað stig en það gekk ekki alveg eins vel hjá henni í grein tvö. Sara endaði þar í sextánda sæti sem skilaði henni 55 stigum.

Sara er þar með komin með 155 stig eftir tvær og er í sjötta sæti, fimm stigum á eftir hinni ungversku Lauru Horvath.

Oddrún Eik Gylfadóttir er í 11. sæti eftir tvær greinar með 128 stig. Eik varð í 15. sæti í fyrstu grein og í áttunda sæti í annarri grein.

Samantha Briggs hefur byrjað mótið frábærlega og er þegar komin með 190 stig. Hún varð önnur í báðum hreinum. Harriet Roberts frá Ástralíu vann aðra greinina og er fimm stigum á eftir Briggs.

Hér fyrir neðan má sjá hvernig keppnin gekk fyrir sig í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×