Handbolti

Norsku stelpurnar kláruðu sitt en nú þurfa þær og Þórir bara að bíða

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stine Bredal Oftedal.
Stine Bredal Oftedal. Vísir/EPA
Norska kvennalandsliðið í handbolta vann sinn þriðja sigur í röð á EM kvenna í handbolta í Frakklandi í dag en það kemur ekki í ljós fyrr en seinna í kvöld hvort það nægir til að koma þeim í undanúrslitin.

Norska liðið vann þá sjö marka sigur á Spáni, 33-26, en spænska liðið hefur tapað öllum þremur leikjum sínum í milliriðlinum.

Dönsku stelpurnar gerðu á sama tíma út um allar vonir Svartfjallalands um að komast í undanúrslit þegar Danmörk vann eins marks sigur á Svartfjallalandi, 24-23 eftir að hafa verið fjórum mörkum yfir í hálfleik, 15-11.

Danska liðið átti ekki möguleika á því að komast í undanúrslitin eftir tap fyrir Rússlandi og Frakklandi í tveimur fyrstu leikjum sínum í millriðlinum sínum.





Norska liðið tapaði tveimur af fyrstu þremur leikjum sínum á mótinu en Þóri Hergeirssyni, íslenskum þjálfara þeirra, hefur heldur betur náð að koma liði sínu í gírinn í milliriðlinum þar sem liðið vann þrjá leiki sína með 11 mörkum að meðaltali. Noregur hafði áður unnið þrettán marka sigra á Ungverjalandi (38-25) og Hollandi (29-26).

Stine Bredal Oftedal, fyrirliði norska liðsins, var markahæst með 8 mörk en hornamennirnir Camilla Herrem og Malin Aune skoruðu báðar fjögur mörk. Stine Bredal Oftedal var valin besti leikmaður vallarins af mótshöldurum en hún átti einnig fimm stoðsendingar og kom því með beinum hætti að þrettán mörkum norska liðsins í leiknum.

Noregur endar með sex stig í riðlinum og er nú við hlið Rúmeníu og Hollands sem eiga bæði leik inni í dag. Það gæti farið að innbyrðisviðureignir ráði röð efstu liðanna þegar leik lýkur í kvöld.

Spænsku stelpurnar komust í 7-4 í upphafi leiks og héldu í við þær norsku í fyrri hálfeik. Norska liðið var aðeins einu marki yfir í hálfleik, 18-17.

Þórir Hergeirssonar stillti sínar stelpur af í hálfeik og þær unnu fyrstu sex mínútur seinni hálfleiksins 6-3 og komust í 24-20. Fimm norsk mörk í röð um miðjan hálfleikinn gerðu síðan út um leikinn en þær norsku komust með þeim frábæra kafla í 31-22.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×