Sport

HM í pílukasti hefst á morgun: Veisla frá byrjun til enda

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Heimsmeistaramótið í pílukasti hefst á morgun og verður í fyrsta sinn sýnt frá keppninni í íslensku sjónvarpi en sýnt verður frá öllu mótinu á Stöð 2 Sport 2. Fyrsta beina útsendingin verður annað kvöld klukkan 19.30 en mótið verður nánast daglega þar til að úrslitaviðureignin fer fram á nýársdag.

Mótið fer fram í Alexandra Palace í Lundúnum, gamalli höll sem er stundum kölluð Ally Pally. Mikil eftirspurn er eftir aðgöngumiðum og stemningin mikil í salnum, þar sem á annað tug þúsunda fylgjast með.

Pétur Rúðrik Guðmundsson er íslenskur landsliðsmaður í pílukasti. Hann var lengi vel leikmaður Grindavíkur í körfubolta en hefur síðustu ár einbeitt sér að pílunni. Hann segir mikla tilhlökkun ríkja fyrir mótinu.

„Þetta verður bara veisla frá byrjun til enda. Það er ótrúleg skemmtun að horfa á HM í pílu,“ sagði Pétur. „Þarna eru 10-15 þúsund manns, öskrandi eins og á fótboltaleik. Þetta verður bara gaman.“

Pétur hefur orðið var við mikinn áhuga á pílukasti hér á landi og þá ekki síst á heimsmeistaramótinu sjálfu, sem hefur verið afar vinsælt sjónvarpsefni í Bretlandi og víðar í Evrópu. Pétur segir að það þurfi ekki mikla þekkingu á íþróttinni til að kveikja áhugann.

„Í upphafi mun fólk þekkja fyrst og fremst stóru nöfnin, eins og Michael van Gerwen og Gary Anderson. Og svo kannski einn sem gæti talist skúrkur - Gerwyn Price sem er svolítið að láta reyna á hvernig menn mega haga sér á línunni. Mörgum finnst það mjög skemmtilegt,“ segir Pétur.

Pílukast var fyrst vinsælt á krám í Bretlandi en Pétur segir að nú sé ný kynslóð pílukastara að ryðja sér rúms sem hefur fengið allt annað uppeldi í íþróttinni.

„Fólk verður mjög fljótt að finna sér einhvern til að halda með og ég hvet alla til að horfa á þetta frá byrjun.“




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×