Körfubolti

Skallagrímur hafði betur í framlengdum grannaslag | Þrjú lið á toppnum

Anton Ingi Leifsson skrifar
Sigrún Sjöfn Ámundadóttir fann sig vel í kvöld.
Sigrún Sjöfn Ámundadóttir fann sig vel í kvöld. vísir/bára
Skallagrímur hafði betur gegn Snæfell í framlengdum grannaslag liðanna í Borgarnesi í kvöld. Lokatölur urðu 90-87 en leikurinn var mjög svo spennandi.

Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik og að honum loknum var staðan 45-44, gestunum úr Stykkishólmi í vil. Liðin skiptust á forystunni í þriðja leikhlutanum og eftir mikla dramatík í fjórða leikhluta jafnaði Shequila Joseph metin í 79-79. Því þurfti að framlengja.

Í framlengingunni reyndust heimastúlkur í Skallagrím sterkari og eru þær því komnar með átta stig í sjötta sæti deildarinnar. Snæfell er jafnt Keflavík og KR með átján stig á toppi deildarinnar.

Shequila Joseph var frábær í liði Skallagríms. Hún skoraði 35 stig, tók 25 fráköst og gaf sjö stoðsendingar. Sigrún Sjöfn Ámundadóttir gerði sautján stig, tók sex fráköst og gaf fjórar stoðsendingar.

Í liði Snæfells var Kristen Denise McCarthy stigahæst með 35 stig. Hún tók að auki átta fráköst og gaf átta stoðsendingar. Angelika Kowalska kom næst með sautján stig.

Nýliðar KR mörðu nauman sigur á botnliði Blika, 76-73, í miklum spennuleik í DHL-höllinni í kvöld en KR er á toppnum ásamt Keflavík og Snæfell. Öll liðin eru með átjá stig. Breiðablik er á botninum með tvö stig.

Staðan var jöfn í hálfleik, 37-37, og er rúm mínúta var eftir af leiknum var allt jafnt, 71-71. Heimastúlkur reyndust sterkari á lokakaflanum og unnu að lokum þriggja stiga sigur.

Orla O'Reilly fór á kostum í liði KR og skoraði 30 stig. Hún tók þar að auki níu fráköst. Sanja Orazovic gerði 28 stig fyrir gestina, tók sjö fráköst og gaf sjö stoðsendingar.

Stjarnan vann nokkuð þægilegan sigur á Haukum í öðrum grannaslag, 73-60, er liðin mættust í Hafnarfirði í kvöld. Stjarnan leiddi með tveimur stigum í hálfleik, 25-27, en mun meira var skorað í síðari hálfleik. Sigurinn var öruggari en lokatölurnar gefa til að kynna.

Danielle Victoria Rodriguez skoraði 25 stig og tók þar að auki átta fráköst og gaf tíu stoðsendingar í liði Stjörnunnar en Bríet Sif Hinriksdóttir gerði nítján stig. LeLe Hardy skraði 30 stig fyrir Hauka og tók fimmtán fráköst.

Haukarnir eru í næst neðsta sæti deildarinnar með sex stig en Stjarnan er með fjórtán stig í fjórða sætinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×