Fótbolti

750 ársmiðar á leiki karlalandsliðsins fara í sölu í hádeginu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslensku strákarnir fagna hér sigri á Englendingum á EM 2016.
Íslensku strákarnir fagna hér sigri á Englendingum á EM 2016. Vísir/Getty
Knattspyrnusamband Íslands ætlar að setja fleiri ársmiða á heimaleiki Ísland í undankeppni EM 2020 í sölu í hádeginu en þúsund ársmiðar voru fljótir að fara á þriðjudaginn.

KSÍ segir frá því á heimasíðu sinni að ársmiðasala á leiki Íslands í undankeppni EM 2020 haldi áfram en 750 miðum verður nú bætt við söluna.

Miðasalan hefst í dag, fimmtudaginn 13. desember, klukkan 12:00 og er hún fram á tix.is. Miðasalan verður opin til 8. febrúar, eða þangað til að uppselt verður. Ekki verður bætt við fleiri miðum en þeim er fara í sölu í dag.

Heimaleikir Íslands verða 8. júní á móti Albaníu, 11. júní á móti Tyrklandi, 7. september á móti Moldóvu, 11. október á móti Frakklandi og 14. október á móti Andorra.

Þeir sem keyptu ársmiðana á þriðjudaginn fá þá afhenta eða senda í pósti í gjafaöskju með óvæntum glaðningi. „Tilvalin jólagjöf fyrir allt knattspyrnuáhugafólk!,“ eins og kom fram í frétt á ksi.is um söluna.

Auk þess að tryggja ársmiðahafa sæti á öllum heimaleikjum Íslands í undankeppni EM 2020 fá korthafar aðgang að opinni æfingu liðsins á árinu 2019. Errea veitir ársmiðahöfum líka fimmtán prósent afslátt af landsliðsvörum. Þá geta heppnir ársmiðkaupendur átt von á að vinna baksviðspassa Vodafone á heimaleikjum.



 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×