Innlent

Þvagleggir komnir á borð ráðherra

Sveinn Arnarsson skrifar
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra fer yfir þvagleggsmálið.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra fer yfir þvagleggsmálið.
Óánægja skjólstæðinga sjúkratrygginga með nýjan rammasamning stofnunarinnar um þvagleggi er komin á borð ráðherra heilbrigðismála og velferðarnefndar þingsins. Bergur Þorri Benjamínsson, formaður Sjálfsbjargar, undrast vinnubrögð Sjúkratrygginga og segir stofnunina skaffa annars flokks vöru.

Fréttablaðið greindi frá því í gær að megn óánægja væri með nýja rammasamninginn. Páll Ingvarsson, sérfræðilæknir á Grensásdeild Landspítalans, telur þá vöru sem stendur skjólstæðingum hans til boða ekki vera þá bestu sem völ er á og valdi þeim aukinni hættu á sýkingum, blóðeitrunum og nýrnabilun.

„Málið er komið á mitt borð og ég hef þegar kallað eftir upplýsingum frá Sjúkratryggingum Íslands,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.

„Á þessu stigi get ég ekki frekar tjáð mig um málið en það verður skoðað innan ráðuneytisins.“

Halldóra Mogensen, formaður velferðarnefndar, hefur tjáð Sjálfsbjörg að málið verði tekið fyrir á nýju ári og að farið verði ofan í kjölinn á því.

Formaður Sjálfsbjargar segir mikilvægt að undið verði ofan af þessum rammasamningi.

„Við teljum þennan rammasamning mjög óábyrgan og í raun hættulegan. Við krefjumst þess að menn endurskoði þessi áform sín til hagsbóta fyrir þá sem þurfa að nota umrædd lækningatæki.“


Tengdar fréttir

Telur sparnað Sjúkratrygginga lífshættulegan sjúklingum

Sérfræðilæknir á Grensásdeild Landspítala telur nýjan rammasamning Sjúkratrygginga um þvagleggi ógna heilsu sjúklinga sem þá nota. Hann segir ríkið spara á bilinu 50 til 60 krónur með ódýrari leggjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×