Enski boltinn

Mourinho skýtur á titlaleysi Liverpool

Tómas Þór Þórðarson skrifar
José Mourinho segir alltaf eitthvað.
José Mourinho segir alltaf eitthvað. vísir/getty
José Mourinho, knattspyrnustjóri Manchester United, segir titla skipta máli í aðdraganda leik liðsins gegn Liverpool á sunnudaginn en Portúgalinn var spurður spjörunum úr á blaðamannafundi í morgun.

Liverpool er á toppnum í ensku úrvalsdeildinni eftir 16 umferðir en á enn eftir að vinna titil undir stjórn Jürgens Klopps. Þjóðverinn er búinn að tapa tveimur úrslitaleikjum í röð í Evrópudeildinni og Meistaradeildinni.

Mourinho hefur kvartað sáran yfir ekki nægilega miklu fjármagni til að kaupa leikmenn en hann sagði í ágúst að Liverpool væri að reyna að kaupa titilinn eftir að eyða 177 milljónum punda í nýja leikmenn í sumar.

Þrátt fyrir mikla gagnrýni hefur Mourinho unnið tvo titla með United-liðið og ýjaði að því að betra væri fyrir Liverpool að gera slíkt hið sama.

„Ég veit ekki hvort að titlar skipti máli, það fer eftir því hvernig þú lítur á þetta. Mér finnst titlar skipta máli. Sérstaklega þegar að þú ert með lið sem getur barist um titla og þegar að þú segir að takmarkið er að vinna titla,“ segir Mourinho.

„Það er ekki gáfulegt að tala stundum bara til að tala en þegar lið eru nógu góð til að vinna titla þurfa þau ekkert að fela sig. Jürgen hefur sagt nú þegar að markmið Liverpool er að vinna ensku úrvalsdeildina,“ segir José Mourinho.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×