Enski boltinn

Salah valinn bestur annað árið í röð

Smári Jökull Jónsson skrifar
Salah var valinn bestur í Afríku annað árið í röð.
Salah var valinn bestur í Afríku annað árið í röð. vísir/getty
Mohamed Salah leikmaður Liverpool var í dag valinn besti leikmaður Afríku. Þetta er annað árið í röð sem Salah hlotnast þessi heiður en hann hefur átt magnað ár bæði með Liverpool og landsliði Egyptalands.

Þessi 26 ára gamli Egypti varð hlutskarpari en Mehdi Benatia, Kalidou Koulibaly, Sadio Mane og Thomas Partey í kjörinu. Salah var valinn besti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili og þá skoraði hann 44 mörk í 52 leikjum með Liverpool á síðustu leiktíð.

„Það er frábær tilfinning að vinna aftur. Ég er ánægður og væri til í að vinna aftur á næsta ári," sagði Salah eftir að tilkynnt var um valið.

Salah leiddi Liverpool alla leið í úrslit Meistaradeildarinnar á síðasta tímabili og þá skoraði hann tvö mörk í leiknum sem tryggði Egyptalandi sæti á HM í fyrsta sinn síðan 1990. Hann meiddist í úrslitaleik Meistaradeildarinnar en náði sér í tæka tíð fyrir Heimsmeistaramótið þar sem hann skoraði tvö mörk.

„Það hafa verið margar góðar stundir á árinu 2018. Leikurinn gegn Roma á Anfield (í undanúrslitum Meistaradeildarinnar) var ótrúlegur. Ég er að skora mörk og hjálpa liðinu mínu að ná efsta sæti deildarinnar," sagði Salah og bætti við að markmiðið fyrir 2019 væri að vinna titil með Liverpool. 

Salah er fyrsti leikmaðurinn til að vinna þessi verðlaun tvö ár í röð síðan Jay-Jay Okocha gerði það árin 2003 og 2004. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×