Enski boltinn

Rashford: Mætum til að vinna

Smári Jökull Jónsson skrifar
Marcus Rashford fagnar með Ashley Young.
Marcus Rashford fagnar með Ashley Young. Vísir/Getty
Marcus Rashford, leikmaður Manchester United, segir að Liverpool sé ekki sigurstranglegra liðið fyrir viðureign liðanna í ensku úrvalsdeildinni á morgun.

Liverpool er í efsta sæti deildarinnar og hefur enn ekki tapað leik. Manchester United er í 6.sætinu, 16 stigum á eftir Liverpool.

„Við erum ekki að fara þangað sem ólíklegri aðilinn, ég held að við séum að fara þangað til að vinna líkt og í öllum öðrum leikjum," sagði Rashford í samtali við Sky Sports.

„Þeir eru með gott lið, ákefðin í þeirra leik gerir það að verkum að það er erfitt að spila gegn þeim en við verðum að mæta tilbúnir. Það er mikilvægt að við einbeitum okkur að sjálfum okkur, sjá hvort við getum ekki sært þá og skorað mörk."

Aðspurður hvort þjálfarinn, Jose Mourinho, væri öðruvísi í undirbúningi fyrir stórleiki sagði Rashford að það væri erfitt að finna ekki spenninginn og eftirvæntinguna fyrir leikinn en bætti við að Mourinho væri einbeittur í að vinna sigur.

„Ég held að hann sé aðeins öðruvísi, líkt og við allir þegar líður að svona stórum leikjum. Það er mikill spenningur í loftinu og líkt og aðrir eigum við erfitt með að fela það."

„Hann er sigurvegari og er aðeins að hugsa um að vinna, hvernig við eigum að vinna og hvað við þurfum að gera til þess að vinna. Að ná í þrjú stig er það sem skiptir máli."

Leikur Liverpool og Manchester United er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD á morgun klukkan 16:00. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×