Körfubolti

Stjarnan, Skallagrímur , ÍR og Valur verða í pottinum í 8-liða úrslitum

Bjarni Þórarinn Hallfreðsson skrifar
Rodriguez átti frábæran leik hjá Stjörnunni
Rodriguez átti frábæran leik hjá Stjörnunni vísir/ernir
Stjarnan, Skallagrímur og ÍR komust öll í 8-liða úrslit Geysisbikar kvenna í dag.



Stjarnan mætti KR í stórleik 16-liða úrslitanna en Danielle Rodriguez fór enn einu sinni á kostum í liði Stjörnunnar í öruggum sigri, 82-64.



Rodriguez náði þrefaldri tvennu en hún skoraði 24 stig, tók 11 fráköst og gaf 12 stoðsendingar.



Þá átti Bríet Sif Hinriksdóttir einnig góðan leik í liði Stjörnunnar en hhún skoraði 22 stig og gaf 7 fráköst. Ragnheiður Benónísdóttir átti góða innkomu af bekknum og skoraði 12 stig og tók 4 fráköst.



Kiana Johnson var stigahæst í liði KR en hún skoraði 16 stig, tók 8 fráköst og gaf 8 stoðsendingar.



ÍR og Keflavík B áttust við í hörkuleik og réðust úrslitin á lokasekúndum leiksins.



Allt var í járnum í leiknum og voru liðin jöfn í hálfleik, 36-36.



Svipað var upp á teningnum í síðari hálfleik og Jóhanna Herdís Sævarsdóttir kom ÍR-ingum yfir er 11 sekúndur voru til leiksloka. Keflavík fékk tækifæri til þess að vinna leikinn og komast áfram en Eydís Eva Þórisdóttir brást bogalistinn á lokasekúndu leiksins og sigur ÍR-inga staðreynd.



Nína Jenný Kristjánsdóttir var stigahæst í liði ÍR en hún skoraði 25 stig og tók 8 fráköst. Í liði Keflavíkur var Eydís Eva stigahæst með 19 stig.



Skallagrímur vann tiltölulega þægilegan sigur á Njarðvík í Ljónagryfjunni. Skalalgrímur leiddi með þremur stigum eftir fyrsta leikhluta en Skallagrímur jók svo forystu sína til muna í öðrum leikhluta, og staðan 49-31 í hálfleik.



Skallagrímur jók forystu sína í þriðja leikhluta og lokatölur í leiknum urðu 62-91, Skallagrím í vil.



Skallagrímur, ÍR og Stjarnan verða því í pottinum er dregið verður í 8-liða úrslit bikarsins. Valur verður einnig í pottinum en Hamar gaf leik sinn. Valur fær því dæmdan 20-0 sigur.



Á morgun og mánudag ræðst svo hvaða fjögur lið bætast við í pottinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×