Enski boltinn

Mourinho segir Liverpool hafa verið heppið

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Jose Mourinho
Jose Mourinho vísir/getty
Jose Mourinho segir Liverpool hafa heppnina með sér í leikjum sínum. Liverpool og Manchester United mætast í stórleik helgarinnar í dag.

Liverpool hefur 16 stiga forskot á erkifjendur sína í United í töflunni, sátu á toppnum fyrir umferðina og endurheimta toppsætið af Manchester City með sigri.

„Að sjálfsögðu er Liverpool liðið fullt sjálfstraust. Þeir eru á toppnum og þeir hafa þessa tilfinningu með sér að þeir eru heppnir. Það fer allt vel fyrir þá,“ sagði Mourinho.

„Þeir vita að þeir voru heppnir að vinna Everton, þeir vita að fyrsta markið í síðasta leik var rangstaða og þeir vita að gegn Napólí hefðu þeir getað dottið úr leik á síðustu sekúndunum.“

„Þeir eru með þessa tilfinningu sem ég þekki frá því að ég var með mín lið á toppi deildarinnar, eins og allt falli með þér.“

Liverpool var svo sannarlega heppið að Jordan Pickford gerði hrikaleg mistök sem leiddu til sigurmarksins gegn Everton. Fyrsta markið gegn Bournemouth hefði vissulega ekki átt að standa vegna rangstöðu en Liverpool skoraði fjögur.

„Þeir eru fullir af sjálfstrausti en þeir eru ekki heimskir. Þeir þekkja okkar veikleika og okkar styrk,“ sagði Jose Mourinho.

Leikur Liverpool og Manchester United hefst klukkan 16:00 og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×