Enski boltinn

Mourinho: Erum í veseni með formið

Bjarni Þórarinn Hallfreðsson skrifar
Mourinho var ekki reiður út í lærisveina sína að leik loknum
Mourinho var ekki reiður út í lærisveina sína að leik loknum vísir/getty
Jose Mourinho, stjóri Manchester United segir að leikmenn sínir séu í vandræðum með formið, og viðurkennir að það eru nokkrir leikmenn að glíma við meiðsli í kjölfarið af tapi Manchester United gegn erkifjendum sínum í Liverpool.



Liverpool vann Manchester United 3-1 í stórleik helgarinnar, en það var Xherdan Shaqiri sem reyndist hetja Liverpool en hann kom inn á af bekknum er allt var jafnt, en tvö mörk hans tryggðu Liverpool sigurinn.



Á blaðamannafundi eftir leikinn talaði Mourinho um hve formið og krafturinn í leikmönnum Liverpool væri betra en hjá lærisveinum sínum, og að það væri eitthvað sem Manchester United ætti að horfa til.



„Fyrst af öllu erum við í veseni með formið. Margir leikmenn eru að glíma við meiðsli, sömu leikmennirnir eru alltaf meiddir. Það byrjaði ekki hjá mér, það var líka svona áður en ég mætti,“ sagði Mourinho.



„Ef þú horfir á leikmenn eins og Robertson, Mane, Salah, Wijnaldum, Keita, Fabinho, þá eru þetta allt leikmenn í frábæru formi. Ofan á það, þá eru þeir mjög góðir leikmenn.“



„Ég er einnig með góða fótboltamenn, en við erum ekki með marga kraftmikla leikmenn eins og Liverpool.“



Mourinho vildi lítið gagnrýna sína leikmenn, en hrósaði bakverði Liverpool, Andrew Robertson í hástert.



„Mínir leikmenn gáfu allt sem þeir áttu, og þegar þeir gera það, er ég ekki reiður við þá. Ég er enn þreyttur á að horfa á Robertson. Ég held að hann hlaupi hundrað metra spretti á hverri mínútu, og það eru gæði.“

Klippa: Jose Mourinho Post Match Interview



Fleiri fréttir

Sjá meira


×