Viðskipti erlent

Dagatal með Pútín selst eins og heitar lummur í Japan

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Rússlandsforseti er þekktur fyrir að láta taka sérstakar myndir af sér en hér fer hann í ískalt bað fyrr á árinu.
Rússlandsforseti er þekktur fyrir að láta taka sérstakar myndir af sér en hér fer hann í ískalt bað fyrr á árinu. vísir/getty
Svo virðist sem að Japanir séu sólgnir í dagatal með myndum af Vladimir Pútín, Rússlandsforseta. Ef marka má sölutölur verslunarinnar Loft, sem er með einkarétt á að selja dagatal fyrir árið 2019 með myndum af forsetanum, er hann vinsælli en helstu stjörnur Japans.

Á vef Guardian er greint frá því að dagatölin með Pútín séu vinsælli en dagatöl með japanska leikaranum Kei Tanaka og Yuzuru Hanyu sem er Ólympíumeistari á skautum.

Spurningin er hvort einhverjir séu kannski að kaupa dagatölin með Rússlandsforseta í gríni á meðan aðrir eru í raun og veru áhugasamir um líf Pútín.

Þannig velta fjölmiðlar í Japan því upp hvort að svo margir Japanir, og þá kannski sérstaklega konur, kaupi dagatalið vegna sérstaks stíls hans og óheflaðrar karlmennsku.

Þetta er ekki fyrsta sinn sem dagatal með honum rýkur út þar sem það sama var uppi á teningnum með dagatalið fyrir árið 2017.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×