Enski boltinn

Messan: Allt annað að þjálfa í Þýskalandi heldur en á Englandi

Anton Ingi Leifsson skrifar
Hann var líflegur á hliðarlínunni í gær.
Hann var líflegur á hliðarlínunni í gær. vísir/getty
Hjörvar Hafliðason, knattspyrnuspekingur Messunnar, segir að það sé allt öðruvísi að þjálfa í Englandi heldur en í Þýskalandi.

Þetta sagði Hjörvar er spekingarnir í Messunni ræddu um öflugan sigur Southampton gegn Arsenal en við liðinu tók á dögunum Austurríkis-maðurinn Ralph Hasenhüttl.

„Hann var hjá Leipzig og það er allt annað umhverfi að þjálfa í Þýskalandi heldur en í Englandi,“ sagði Hjörvar er Ríkharð Óskar spurði hann hvort að hann þekkti til hans.

„Þar var hann alltaf með yfirmann knattspyrnumála yfir sér, Ralf Rangnick, sem menn þekkja frá Stuttgart. Ástæðan fyrir því að Southampton eru í skíta málum eru mislukkaðar fjárfestingar á undanförnum árum.“

Southampton hefur selt marga leikmenn á undanförnum árum og þar eru margir sem hafa gert það gott í stórum liðum en Hjörvar segir að þeir hafi ekki náð að fylla í þau skörð almennilega.

„Leikmenn sem hafa verið keyptir hafa ekki gert neitt en þeir hafa átt stórkostlegar sölur og fengið fullt af peningum en ekki náð að fylla þau skörð.“

„Dæmi um bullið sem er í gangi hjá Southampton og þeirri stöðu sem þeir eru í er að þeir geti ekki losað sig við Fraser Forster því hann er á svo góðum samning.“

„Það vill ekkert lið taka hann og það er hluti af þessu en stórt fyrir Southampton að enda þessa 22 leikja taplausu hrinu Arsenal. Það gefur mönnum örugglega sjálfstraust,“ sagði Hjörvar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×