Enski boltinn

Harry Kane: Tottenham verður að fara að vinna titla

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Harry Kane.
Harry Kane. Vísir/Getty
Tottenham hefur verið eitt mest spennandi knattspyrnulið Englands undanfarin ár en það hefur vantað að liðið fari alla leið og vinni titil.

Framherjinn Harry Kane segir að félagið leggi mikla áherslu á það að enda biðina eftir titli á þessu tímabili. Næst á dagskrá er leikur á móti nágrönnunum í Arsenal í átta liða úrslitum enska deildabikarsins en hann fer fram annað kvöld.

„Við erum bara á þeim stað sem lið að næsta skref er að vinna tila. Við verðum að fara byrja á því að vinna titla,“ sagði Harry Kane í viðtali við Sky Sports.

„Ef við vinnum þennan leik á móti Arsenal þá verðum við lausir við annað sterkt lið í þessari keppni. Þetta er því stórt tækifæri fyrir okkur. Við mættum þeim fyrir nokkrum vikum og þá höfðu þeir betur. Það er því gott að fá að mæta þeim svona fljótt aftur,“ sagði Kane.

Arsenal vann 4-2 sigur á Tottenham í ensku deildinni á dögunum en síðan hefur Tottenham unnið alla þrjá deildarleiki sína og komist áfram í sextán liða úrslit Meistaradeildarinnar.

„Vonandi tekst okkur að ná réttu úrslitunum í þetta skiptið. Leikirnir gerast ekki mikið stærri en leikur á móti erkifjendunum í átta liða úrslitum,“ sagði Kane.

Mauricio Pochettino settist í knattspyrnustjórastólinn hjá Tottenham í maí 2014 og síðan þá hefur liðið hækkað sig á hverju ár. Liðið hefur verið í fimmta, þriðja, öðru og þriðja sæti í ensku úrvalsdeildinni undanfarin ár.

Tottenham hefur aftur á móti ekki unnið titil undir stjórn Pochettino. Undanfarin tvö tímabil hefur liðið fallið út í undanúrslitum enska bikarsins og liðið tapaði líka fyrir Chelsea í úrslitaleik enska deildabikarsins 2015.

Tottenham vann síðast titil árið 2008 þegar enski deildabikarinn kom í hús eftir 2-1 sigur á Chelsea á Wembley en Tottenham vann enska bikarinn síðast 1991. Síðasti Evróputitilinn kom í hús árið 1984 og Spurs hefur ekki unnið ensku deildina síðan 1961.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×