Enski boltinn

De Bruyne: Ég var ekki of þreyttur

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Belginn var einn sá besti síðasta vetur. Þessi vetur hefur farið í meiðslavandræði
Belginn var einn sá besti síðasta vetur. Þessi vetur hefur farið í meiðslavandræði vísir/Getty
Kevin de Bruyne segist ekki hafa verið dauðþreyttur eftir síðasta tímabil, þvert á orð þjálfara hans Pep Guardiola. Belginn hefur fengið næga hvíld og er tilbúinn í að beita sér a fullum krafti fyrir Manchester City.

Pep Guardiola sagði að de Bruyne hefði verið uppgefinn af þreytu eftir síðasta tímabil þar sem miðjumaðurinn spilaði 52 leiki fyrir City og belgíska landsliðið. Belgar fóru alla leið í undanúrslitaleikinn á HM í Rússlandi í sumar.

De Bruyne meiddist á æfingu City snemma á tímabilinu og var frá í tvo mánuði. Þremur leikjum eftir að hann snéri aftur meiddist hann aftur, þá á hinu hnénu.

Belginn er hins vegar kominn aftur og segist tilbúinn í slaginn.

„Ég var ekki dauðþreyttur. Ég held að fólk þurfi almennt almennilegt sumarfrí,“ sagði de Bruyne.

„Ég fékk hvíld í um þrjár vikur eftir að hafa spilað í 12 mánuði. Er það stutt? Já, líklega. En ég var tilbúinn í að koma til baka.“

De Bruyne spilaði sínar fyrstu mínútur í úrvalsdeildinni á tímabilinu þegar hann kom inn á í sigrinum á Everton á laugardag.

City er í öðru sæti úrvalsdeildarinnar, einu stigi á eftir Liverpool eftir 17 umferðir.

„Liðið stóð sig frábærlega án mín en ég er viss um að þeir eru glaðir með að fá mig aftur.“

„Við erum að berjast um fjóra titla. Það koma meiðsli en við viljum halda þeim eins fáum og hægt er. Ef þú vilt ná að vinna allt þá þarf stóran hóp.“

Jólin eru sá tími sem hvað mest er að gera hjá leikmönnum í enska boltanum og hefst jólaösin hjá City á heimavelli gegn Crystal Palace á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×