Erlent

Trump lokar góðgerðasamtökum í skugga ásakana um lögbrot

Kjartan Kjartansson skrifar
Fyrirtæki Trump og hann sjálfur er sagður hafa hagnast mest á framlögum í góðgerðasjóðinn sem rekinn var í nafni hans.
Fyrirtæki Trump og hann sjálfur er sagður hafa hagnast mest á framlögum í góðgerðasjóðinn sem rekinn var í nafni hans. Vísir/EPA
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur fallist á að loka góðgerðasamtökum sínum og gefa féð sem eftir er í sjóðum þess. Dómsmálaráðherra New York greindi frá þessu í dag en saksóknarar þar hafa sakað forsetann um að hafa notað samtökin í eigin þágu og stjórnmálaframboðs síns.

Yfirvöld í New York krefja samtökin enn um 2,8 milljónir dollara í bætur og hafa beðið dómara um að banna Trump og þremur elstu börnum hans að sitja í stjórn félagasamtaka í ríkinu tímabundið.

Barbara Underwood, dómsmálaráðherra New York, sagði í dag að rannsókn hefði leitt í ljós „sláandi mynstur ólöglegra gjörninga“ sem tengjast Trump-sjóðnum. Sjóðurinn hefði til að mynda átt í ólöglegu samráði við forsetaframboð Trump og stundað endurtekin viðskipti þar sem Trump-fjölskyldan var beggja vegna borðsins, að því er kemur fram í frétt Washington Post.

Bandaríska blaðið hefur fjallað um meint misferli Trump-sjóðsins. Trump er sagður hafa notað fé sem var safnað í góðgerðaskyni til að greiða fyrir dómssáttir einkafyrirtækis hans, kaupa listaverk fyrir einn golfklúbba sinna og ólögleg framlög í kosningasjóði.

Hagnaðist mest sjálfur á sjóðnum

Trump hafnaði því að sjóðurinn hefði gert nokkuð ólöglegt árið 2016 og sagðist vilja loka honum. Saksóknarar í New York bönnuðu það á meðan málefni sjóðsins væru til rannsóknar.

Lítið fé var í fjárhirslum Trump-sjóðsins en Trump lét sjálfur lítið sem ekkert fé af hendi rakna í hann heldur safnaði framlögum frá öðrum. Það kom þó ekki í veg fyrir að Trump gæfi fé úr sjóðnum í eigin nafni. Trump sjálfur og fyrirtæki hans virðast hafa hagnast á framlögum í sjóðinn.

Á meðan á kosningabaráttunni stóð árið 2016 lét Trump framboði sínu eftir stjórn á sjóðnum. Safnaði hann meira en tveimur milljónum dollara í góðgerðafélagið á fjáröflunarviðburði í Iowa sem þáverandi kosningastjóri hans sé síðan um að útdeila. Ólöglegt er fyrir góðgerðasamtök að taka þátt í stjórnmálaframboðum.

Elstu börn Trump; Donald yngri, Eric og Ivanka, sátu öll í stjórn Trump-sjóðsins. Þau sátu hins vegar aldrei stjórnarfundi. Sá síðasti var enda haldinn árið 1999. Allen Weisselberg, forstjóri Trump-fyrirtækisins, var skráður gjaldkeri sjóðsins en hann sagði saksóknurum að hann hafi ekki vitað af því. Engin stefna hafi verið hjá sjóðnum um hvernig lögmæti greiðslna úr honum var metið.

Rannsóknin á Trump-sjóðnum er aðeins ein af fjölmörgum sem beinist að forsetanum og fyrirtækjum hans. Nýlega var greint frá því að rannsókn stæði yfir á fjármálum undirbúningsnefndar fyrir valdatöku Trump. Grunur leiki á að erlendir aðilar hafi reynt að kaupa sér aðgang að nýju ríkisstjórninni með framlögum til nefndarinnar.


Tengdar fréttir

Rannsaka eyðslu í tengslum við embættistöku Trump

Alríkissaksóknarar í New York hafa hafið sakamálarannsókn á því hvort að nefnd sem bar ábyrgð á innsetningu Donald Trump í embætti hafi misfarið með hluta þess fé sem hún hafi safnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×