Erlent

Plútófar NASA nálgast sögulegt framhjáflug í ytra sólkerfinu

Kjartan Kjartansson skrifar
Teikning af New Horizons við Ultima Thule sem heitir formlega 2014 MU69.
Teikning af New Horizons við Ultima Thule sem heitir formlega 2014 MU69. NASA/JHUAPL/SwRI

Bandaríska geimfarið New Horizons stefnir nú hraðbyri á Ultima Thule, íshnullung í Kuiper-beltinu svonefnda. Fyrirbærið er það fjarlægasta sem geimfar mun hafa heimsótt í sólkerfinu. Áður varð New Horizons fyrsta geimfarið til að fljúga fram hjá dvergreikistjörnunni Plútó.



Eftir framhjáflugið hjá Plútó sumarið 2015 stefndu stjórnendur farsins því inn í Kuiper-beltið, svæði í sólkerfinu sem er fullt af íshnöttum sem taldir eru leifar frá því að það myndaðist fyrir um 4,5 milljörðum ára.



Ultima Thule er íssmástirni í Kuiper-beltinu, um 6,5 milljörðum kílómetra frá jörðinni. Það er talið vera um þrjátíu kílómetrar að þvermáli og fannst fyrst árið áður en New Horizons kom að Plútó. Vísindamenn telja að hnullungurinn sé úr ís og ryki, líklega í laginu eins og kartafla eða hneta. Yfirborð hans er líklega afar dökkleitt eftir orkuríka geislun eins og röntgenbylgjur og geimgeisla sem hafa dunið á því í milljarða ára.



Næst fer New Horizons á nýársdag. Þá verður geimfarið í um 3.500 kílómetra fjarlægð frá Ultima Thule, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Gangi allt að óskum tekur geimfarið myndir af yfirboðinu og gerir aðrar athuganir á lögun smástirnisins og umhverfi.

Kort af braut New Horizons í gegnum sólkerfið á leið sinni til Plútó og Ultima Thule.Johns Hopkins University Applied Physics Laboratory

Ekki verður þó hlaupið að því enda ferðast New Horizons nú á um 51.000 kílómetra hraða á klukkustund. „Getum við flogið 3.500 kílómetra frá þessu fyrirbæri og náð öllum þessum myndum beint á réttum stað og ekki misst af neinu? Það er það sem er spennandi fyrir mig, það er áskorunin,“ sagði Alice Bowman, leiðangursstjórinn í síðustu viku.



Ultima Thule er svo langt frá jörðinni að það tekur gögn frá New Horizons rúmar sex klukkustundir að berast til jarðar. Geimfarið byrjar ekki að senda gögn til jarðar fyrr en þegar nokkuð verður liðið á nýársdag. Búast má við því að fyrstu myndirnar frá framhjáfluginu birtist 2. janúar og þær bestu ekki fyrr en daginn eftir.



Aðstandendur leiðangursins vonast enn til þess að geta sent New Horizons að öðru fyrirbæri í Kuiper-beltinu áður en honum lýkur á næstu árum.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×