Erlent

Hermaður flúði frá Norður-Kóreu

Samúel Karl Ólason skrifar
Hermenn Suður-Kóreu á landamærunum.
Hermenn Suður-Kóreu á landamærunum. EPA/KIM HONG-JI
Hermaður frá Norður-Kóreu flúði yfir til Suður-Kóreu í nótt. Her Suður-Kóreu segir hann hafa komið yfir austurhluta landamæra ríkjanna og var hann fluttur til öryggis af hermönnum. Hermaðurinn fannst á öryggismyndavélum Suður-Kóreu skömmu fyrir klukkan átta að staðartíma.

Hann verður yfirheyrður en yfirvöld Suður-Kóreu hafa tekið fram að engar óvenjulegar aðgerðir hafi átt sér stað við landamærin og virðist sem að hermanninum hafi ekki verið veitt eftirför.



Rétt rúmt ár er frá því að annar hermaður flúði yfir sameiginlegt öryggissvæði ríkjanna á landamærunum og var skotinn af fyrrverandi félögum sínum norðan megin við landamærin. Hann lifði þó af. Sá hermaður heitir Oh Chong-song og sagði hann fjölmiðlum í síðasta mánuði að hann hefði verið að drekka og lent í vandræðum með vini sína. Hann hafi ákveðið að flýja af ótta við að vera tekinn af lífi.

Sjá einnig: Birtu myndband af flótta hermannsins frá Norður-Kóreu



Yfirvöld beggja Kóreuríkjanna vinna nú að því að draga úr spennu á landamærunum. Varðstöðvar og jarðsprengjur hafa verið fjarlægðar að undanförnu og þá eru hermenn í friðarþorpinu Panmunjom hættir að bera vopn. Til stendur að hleypa ferðamönnum inn í friðarþorpið.

Um 30 þúsund manns hafa flúið frá Norður-Kóreu til Suður-Kóreu frá því að Kóreustríðinu lauk árið 1953. Langflestir þeirra hafa fyrst flúið til Kína og þaðan til Suður-Kóreu en afar sjaldgæft er að fólk flýi yfir landamærin, sem hafa lengi verið mjög víggirt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×