Enski boltinn

Mourinho: Erfitt þegar leikmenn skilja ekki að einfaldleikinn er bestur

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Mourinho var súr á hliðarlínunni
Mourinho var súr á hliðarlínunni vísir/getty
Jose Mourinho sagði jafntefli hafa verið sanngjarna niðurstöðu í leik Southampton og Manchester United í ensku úrvalsdeildinni í kvöld.

„Ég held niðurstaðan sé nokkuð sanngjörn, þrátt fyrir að þá staðreynd að við stjórnuðum leiknum,“ sagði Mourinho.

Southampton komst í 2-0 á fyrstu tuttugu mínútunum en United jafnaði metinn á sex mínútna kafla seinna í fyrri hálfleik.

„Þeir byrjuðu leikinn betur en við. Við áttum í vandræðum með að skipuleggja varnarlínuna með aðeins einn hreinræktaðan miðvörð. Við reyndum að vernda þann veikleika með því að spila með þrjá miðverði í stað tveggja.“

„Það virkaði nokkuð vel, mörkin sem við fengum á okkur komu úr aukaspyrnu og svo eftir mjög gott skot. Við þurftum að halda boltanum betur á miðjunni, ef maður nær því þá verður sóknin betri.“

„Við töpuðum boltanum auðveldlega þegar við vorum að færa okkur yfir í sóknarstöður sem gerði okkur erfitt fyrir gegn fimm manna varnarlínu.“

„Undir lok fyrri hálfleiks gerðum við virkilega vel í því að tengja við sóknarmennina með auðveldum, hröðum boltum. Þegar leikmennirnir skilja ekki að snilldin er í einfaldleikanum þá er erfitt að halda spilinu áfram.“

„Við þurfum að bæta okkur í einnar og tveggja snertinga spili, gera það einfalt og hratt.“

Marcus Rashford byrjaði leikinn illa en lagði upp bæði mörk United í leiknum. Framherjinn náði þó ekki að skora sjálfur.

„Ég er ánægður með hann. Hann skilaði frábæru vinnuframlagi og gerði það sem einhver þarf að gera, fara út á vængina og reyna að bjóða miðjunni upp á lausnir. Það eina sem vantaði var markið, en ég get ekki annað en hrósað honum fyrir löngunina og virðinguna fyrir treyjunni.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×