Innlent

Forseta Íslands ofbauð ummæli sexmenninganna

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, tjáði sig um Klaustursupptökurnar.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, tjáði sig um Klaustursupptökurnar. Vísir/EPA
Guðni Th. Jóhannessyni forseta Íslands ofbauð ummæli sexmenninganna sem sátu að sumbli á Klausturbar þann 20. nóvember síðastliðinn. Hann tjáði sig um hneykslið í Silfrinu á Rúv í morgun.

„Auðvitað ofbauð mér, eins og öllu fólki sem á þetta hlustaði. Orðfærið, virðingarleysið, sjálfsupphafningin. Og þetta er ekki leiðin til þess að auka traust landsmanna á Alþingi að viðhafa svona orðfæri sem er til merkis um einhvern undirliggjandi vanda,“ segir Guðni.

Aðspurður hvernig hægt sé að endurreisa traust almennings á þingmönnum eftir þetta hneykslismál svaraði Guðni því til að sem betur færi byggjum við ekki í þannig samfélagi að sá eða sú sem þessu embætti gegnir segði þingmönnum fyrir verkum. Það sé allt á valdi kjósenda.

„Og svo er nú samviskan það vald sem frjálsir menn hlýða. Þetta er eitt af okkar eilífðarverkefnum daginn út og daginn inn, að hugsa um það hvernig við getum orðið að liði.“

Það sé sérstaklega mikilvægt fyrir þjóðkjörna einstaklinga.

„En ég held það yrði ekki til framdráttar góðum málstað ef ég færi að setja mig á afskaplega háan stall og segja öðrum til syndanna. En um leið leyfir maður sér að vona að fólk finni hjá sjálfu sér hvað það hefur gert og hvernig beri að bregðast við,“ segir Guðni.


Tengdar fréttir

Áslaug Arna: „Öllum leið illa“

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að það hafi komið henni á óvart hversu gróft og persónulegt baktal þingmannahópsins var.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×