West Ham keyrði yfir Aron og félaga í síðari hálfleik

Anton Ingi Leifsson skrifar
Leikmenn West Ham fagna einu marki sínu í kvöld.
Leikmenn West Ham fagna einu marki sínu í kvöld. vísir/getty
Aron Einar Gunnarsson spilaði allan leikinn fyrir Cardiff sem fékk skell gegn West Ham, 3-1, á útivelli í ensku úrvalsdeildinni í kvöld.

Staðan var markalaus í hálfleik en eftir níu mínútur í síðari hálfleik var West Ham komið í 2-0 með tveimur mörkum frá Lucas Perez.

Eftir klukkutíma rak Michail Antonio svo síðasta naglann í líkkistu Cardiff er hann skoraði þriðja mark West Ham. Josh Murphy minnkaði muninn fyrir Cardiff í uppbótartíma.

West Ham er með átján stig í tólfta sætinu.

Cardiff er með ellefu stig í sextánda sætinu, tveimur stigum fyrir ofan fallsæti, en fimmtánda umferðin klárast annað kvöld.

Bournemouth heldur áfram að gera frábæra hluti en þeir unnu 2-1 sigur á Huddersfield á heimavelli í kvöld. Callum Wilson og Ryan Fraser komu Bournemouth í 2-0 áður en Terence Kongolo minnkaði muninn. Öll mörkin í fyrri hálfleik.

Bournemouth er í sjötta sæti ensku úrvalsdeildarinnar en þeir hafa unnið sjö af fyrstu fimmtán leikjum sínum í deildinni. Huddersfield er í sautjánda sætinu með tíu stig, stigi fyrir ofan fallsæti.

Brighton vann góðan 3-1 sigur á Crystal Palace þrátt fyrir að hafa verið einum færri frá því á 28. mínútu er Shane Duffy fékk að líta beint rautt spjald.

Rauða spjaldið kom í stöðunni 1-0 en Glenn Murray hafði þá komið Brighton yfir úr vítaspyrnu skömmu áður. Leon Balogun og Florin Andone bættu við mörkum í fyrri hálfleik.

Palace náði að minnka muninn með marki Luka Milivojevic úr vítaspyrnu níu mínútum fyrir leikslok. Brigton er í tólfta sætinu en Crystal Palcae er í fjórtánda sætinu.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira