Ekkert fær City stöðvað

Anton Ingi Leifsson skrifar
Leikmenn City fagna í kvöld.
Leikmenn City fagna í kvöld. vísir/getty
Sigurganga Manchester City heldur áfram í ensku úrvalsdeildinni en þeir unnu 2-1 sigur á Watford á útivelli í kvöld.

Fyrsta markið kom á 40. mínútu er Leroy Sane skoraði með brjóstkassanum eftir frábæra sendingu frá Riyad Mahrez og þannig stóðu leikar í hálfleik.

Á sjöttu mínútu síðari hálfleiks tvöfaldaði Riyad Mahrez forystuna fyrir City eftir að Watford hafi tapað boltanum á klaufalegan hátt á sínum vallarhelming.

Heimamenn voru þó ekki af baki dottnir og minnkuðu muninn fimm mínútum fyrir leikslok er Abdoulaye Doucoure kom boltanum yfir línuna eftir mikinn darraðadans í vítateig City.

Fleiri urðu mörkin ekki og þrettándi sigur City í fyrstu fimmtán leikjunum. Þeir eru með 41 stig á toppi deildarinnar, fimm stigum meira en Liverpool sem spilar annað kvöld. Watford er í ellefta sætinu.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira