Innlent

Sakaður um kynferðisbrot gegn tveimur börnum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Málið er til meðferðar í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Málið er til meðferðar í Héraðsdómi Reykjavíkur. Vísir/Vilhelm
Karlmaður sætir ákæru héraðssaksóknara fyrir nauðgun og kynferðisbrot gegn tveimur ungum börnum á síðasta ári. Málið er til meðferðar í Héraðsdómi Reykjavík en karlinn neitar sök. Í báðum tilvikum er um að ræða önnur kynferðismök en samræði.

Fyrra brotið á að hafa átt sér stað í apríl í fyrra en karlinn er sakaður um að hafa með ólögmætri nauðung dregið unga stúlku inn á stigagang fjölbýlishúss og haft þar í tvígang önnur kynferðismök en samræði við stúlkuna. Nuddaði hann sér upp við hana með samfararhreyfingum svo kynfæri þeirra snertust utanklæða, að því er segir í ákærunni.

Síðara brotið á að hafa átt sér stað í júlí í sturtuklefa á ótilgreindum stað. Er hann sagður hafa tekið ungan dreng í fangið, þar sem þeir voru báðir naktir, tekið um rass hans og kysst á honum typpið.

Brot mannsins varða 1. málsgrein 194. greinar og 1. málsgrein 202. greinar almennra hegningarlaga. 

Forráðamenn stúlkunnar krefjast 1,2 milljóna króna í miskabætur fyrir brot mannsins. Forráðamenn drengsins krefjast 2,3 milljóna króna.

Reikna má með því að dómur verði kveðinn upp í málinu upp úr áramótum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×