Innlent

Umboðsmaður kominn með nóg af starfshópum og nefndum

Aðalheiður Ámundadóttir skrifar
Fangelsið Litla-Hraun.
Fangelsið Litla-Hraun.
„Mér finnst alvarlegt að það taki mörg ár að bregðast við svona alvarlegum vanda og mun inna heilbrigðisráðherra eftir því hverju þetta sæti,“ segir Halldóra Mogensen, formaður velferðarnefndar Alþingis, um samskipti heilbrigðisráðuneytisins og Umboðsmanns Alþingis um aðgerðir vegna stöðu geðheilbrigðismála í fangelsum landsins.

Umboðsmaður hefur beðið viðbragða stjórnvalda við alvarlegri stöðu þeirra mála í tæp sex ár og átt í ítrekuðum bréfaskiptum við ráðuneyti bæði dóms- og heilbrigðismála vegna þess. Af samskiptunum má sjá að umboðsmaður er búinn að fá nóg af skipunum í nefndir og starfshópa sem litlu sem engu hafa skilað.

Í erindi dómsmálaráðuneytisins til umboðsmanns í október síðastliðnum er þeirri afstöðu lýst að mannréttindi geðsjúkra fanga séu ekki fyllilega tryggð og ráðuneytið telji brýnt tilefni til að endurskoða fyrirkomulag geðheilbrigðisþjónustu á Litla-Hrauni sem og í fangelsum landsins almennt. Víðtækt samráð þurfi að hafa í þeim efnum við velferðarráðuneytið og fangelsismálayfirvöld.

Í erindi til heilbrigðisráðherra frá 11. október óskaði umboðsmaður eftir viðbrögðum við afstöðu dómsmálaráðuneytisins. Í erindinu kvað umboðsmaður nokkuð fast að orði um aðgerðaleysi ráðuneytanna þrátt fyrir alvarlega stöðu sem varðað geti ákvæði stjórnarskrár um bann við pyndingum og ómannúðlegri meðferð. Forsætisráðherra fékk afrit af bréfinu.

Í svari heilbrigðisráðuneytis sem barst í síðustu viku er vikið að samningagerð vegna heilbrigðisþjónustu á Hólmsheiði sem gera eigi ráð fyrir auknu og öruggu aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu. Sameiginlegt mat heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og geðsviðs Landspítala sé að geðdeildin veiti þjónustu á Hólmsheiði sem samsvari 10 prósent stöðu geðlæknis og 10 prósent stöðu geðhjúkrunarfræðings. Í svarinu segir að gert sé ráð fyrir að samningur vegna Hólmsheiðar verði í framhaldinu notaður sem fyrirmynd að heilbrigðisþjónustu í öðrum fangelsum landsins.

Þá er í svari ráðuneytisins, vísað til starfshóps sem skipaður verði um endurskoðun samnings frá 1997 milli ráðuneytisins og Fangelsismálastofnunar um heilbrigðisþjónustu við fanga í fangelsum.

Umboðsmaður bíður nú viðbragða Fangelsismálastofnunar og dómsmálaráðuneytis við útspili heilbrigðisráðuneytisins




Fleiri fréttir

Sjá meira


×