Erlent

Hafna raf­knúnum hlaupa­hjólum á götum Madrídar

Atli Ísleifsson skrifar
Samkvæmt reglum borgaryfirvalda í Madríd  má ekki fara um á hjólunum á gangstéttum og torgum. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Samkvæmt reglum borgaryfirvalda í Madríd má ekki fara um á hjólunum á gangstéttum og torgum. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Getty/tolgart
Borgaryfirvöld í Madríd hafa hafnað beiðni um starfsleyfi til fyrirtækja sem hafa leigt út rafknúin hlaupahjól til fólks á götum spænsku höfuðborgarinnar.

Þetta þýðir að þrjú fyrirtæki sem nú þegar bjóða upp á slíka leigu til íbúa og ferðamanna í Madríd fá nokkra sólarhringa frest til að fjarlægja hjólin.

Borgaryfirvöld vilja meina að fyrirtækin hafi ekki gert nægilega mikið til að upplýsa viðskiptavini sína um hvernig skuli nota hjólin og hafi þeir skapað hættu í umferðinni.

Fyrirtækin þrjú – Lime, Wind og Voi – byrjuðu að leigja upp rafknúin hlaupa hjól, einnig þekkt sem e-scooters, fyrr á árinu án þess að hafa sótt um leyfi til starfseminnar.

Samkvæmt reglum borgarinnar má ekki fara um á hjólunum á gangstéttum og torgum. Hefur reynslan leitt í ljós að viðskiptavinir hafi virt reglurnar að vettugi.

Talsmenn borgaryfirvalda segja að fyrirtækjunum sé frjálst að sækja um starfsleyfi að nýju „hvenær sem er“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×