Enski boltinn

Fabinho ekki á förum frá Liverpool

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Fabinho svekktur eftir tap Liverpool í Napoli í Meistaradeildinni á dögunum.
Fabinho svekktur eftir tap Liverpool í Napoli í Meistaradeildinni á dögunum. vísir/getty
Brasilíski miðjumaðurinn Fabinho er ekki á förum frá Liverpool heldur ætlar hann að berjast fyrir stöðu sinni í byrjunarliði Jürgens Klopps.

Brassinn hefur ekki byrjað nógu vel á Anfield en hann var keyptur fyrir 43,7 milljónir punda frá Mónakó í sumar og voru miklar vonir bundnar við hann.

Fabinho kom ekki við sögu í fyrstu átta leikjum ensku úrvalsdeildarinnar því Klopp sagði að hann þyrfti tíma til að aðlagast en miðjumaðurinn er ánægður með sitt hlutverk á fyrsta tímabilinu á Englandi.

„Mér var sagt að einhverjir fjölmiðlar hefðu skrifað ég væri óánægður og vildi fara frá Liverpool. Það sagði ég aldrei. Ég vissi að ég þyrfti að vera þolinmóður og bíða eftir mínu tækifæri. Ég er ánægður hjá Liverpool og því er engin ástæða fyrir mig að fara,“ segir Fabinho í viðtali við UOL.

Fabinho er í mikilli samkeppni við James Milner, Jordan Henderson, Naby Keita og Georginio Wijnaldum um sæti í byrjunarliðinu en Brassinn hefur verið að byrja að undanförnu.

„Klopp var ekkert að útskýra þetta neitt of mikið fyrir mér til að byrja með. Ég einbeitti mér bara að því að æfa og ekki að missa hausinn. Ég vissi að tækifærin myndu koma og nú þarf ég bara að fjölga leikjum,“ segir Fabinho.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×