Enski boltinn

Sex fótboltastelpur missa af bikarleik í kvöld af því að þær fá ekki frí í vinnunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alethea Paul er leikmaður Sheffield United.
Alethea Paul er leikmaður Sheffield United. Vísir/Getty
Það er tvennt ólíkt að vera karl eða kona í ensku knattspyrnunni í dag og þetta kemur vel í ljós hjá leikmönnum Sheffield United í kvöld.

Sex leikmenn kvennaliðs Sheffield United missa nefnilega væntanlega af bikarleik á móti Manchester City af því að þær fá ekki frí í vinnunni.

Sheffield United er hálfáhugamannalið en stelpurnar eru uppteknar í vinnu eða skóla í dag og hafa ekki tíma til að koma sér til Manchester í tíma fyrir leikinn.

Sheffield United keppir í ensku b-deildinni en Manchester City er eitt besta lið Englands.





Forráðamenn Sheffield United reyndu að seinka leiknum en Manchester City tók það ekki í mál þar sem félagið var byrjað að selja miða og hafði þegar bókað starfsmenn vallarins.

Leiktíminn hafði verið ákveðinn og samþykktur af báðum liðum í upphafi tímabilsins. Leikurinn mun hefjast klukkan sjö að breskum tíma. það hefði líklega verið nóg að seinka honum til átta.

Sheffield United hafði ekki samband við Manchester City fyrr en 29. nóvember síðastliðinn þegar menn þar á bæ áttuðu sig á því að liðið yrði í vandræðum með að mæta með alla sína leikmenn.

Það búast allir við sigri Manchester City fyrirfram og ekki minnka sigurlíkur liðsins eftir að Sheffield United mætir með vængbrotið lið til leiks.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×