Handbolti

Enn einn stórleikur Guðjóns

Anton Ingi Leifsson skrifar
Guðjón í leik með Ljónunum.
Guðjón í leik með Ljónunum. vísir/getty
Guðjón Valur Sigurðsson átti enn einn frábæra leikinn fyrir Rhein-Neckar Löwen sem vann öruggan sigur á Magdeburg, 28-22, í þýsku úrvalsdeildinni í kvöld.

Ljónin gerðu í raun út um leikinn í fyrri hálfleik en þeir voru tíu mörkum yfir í hálfleik, 18-8. Eftirleikurinn auðveldur og aldrei spurning hvort liðið tæki sigurinn.

Guðjón Valur, sem var fyrr í dag orðaður við PSG eins og Vísir greindi frá, skoraði níu mörk fyrir Löwen og var markahæstur á vellinum. Alexander Petersson skoraði fjögur mörk. Ljónin með 25 stig í fjórða sætinu.

Annað Íslendingalið, Kiel, vann einnig öruggan sigur í kvöld en þeir unnu 32-18 sigur á Stuttgart eftir að hafa verið 17-11 yfir í hálfleik. Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði eitt mark en Alfreð Gíslason og lærisveinar eru í öðru sætinu.

Bjarki Már Elísson skoraði tvö mörk er Füchse Berlín vann níu marka sigur á Gummersbach, 29-20 en Füchse var einnig níu mörkum yfir í hálfleik, 19-10. Liðið er í fimmta til sjötta sæti deildarinnar.

Aðalsteinn Eyjólfsson og lærisveinar í Erlangen unnu mikilvægan sigur á SG BBM Bietigheim á útivelli, 26-24. Eftir sigurinn er Erlangen komið upp í þrettánda sætið.

Kristianstad vann níu marka sigur á Karlskrona í sænsku úrvalsdeildinni, 36-27. Teitur Örn Einarsson skoraði fimm mörk en Arnar Freyr Arnarsson þrjú. Ólafur Guðmundsson komst ekki á blað en Kristianstad er á toppnum.


Tengdar fréttir

PSG vill Guðjón Val í stað Gensheimer

Franski miðillinn Le Parisien greinir frá því á vefsíðu sinni í kvöld að Guðjón Valur Sigurðsson sé á óskalista franska stórliðsins PSG.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×